Nú til dags vita all flestir hvað beinþyning er og mörg okkar þekkja til einstaklinga sem eru með beinþynningu. Staðreyndin er sú að beinþynning er eitt algengasta vandamál öldrunar og hefur áhrif á heilsu 50% þeirra sem eru eldri en 50 ára. Hér fyrir neðan er samantekt úr grein sem birtist á vefnum caring.com
Beinmeyra (osteopenina) er það kallað þegar beinin eru farin að þynnast, nokkurskonar forstig af beinþynningu. Beinin eru þá ekki eins brothætt og þegar um beinþynningu er að ræða en talsvert veikari en bein með eðlilegri beinþéttni. Beintapið er einkennalaust. Lítum á tíu merki eða atriði sem vert er að gefa gaum.
1. Þú hefur brotnað oftar en einu sinni á síðastliðnum tveimur árum eða þú hefur brotnað við aðstæður/áverka sem beinið hefði átt að þola.
Ef þú brotnar við lítinn áverka er ráðlagt að fara í beinþéttnimælingu, DEXA-röntgenmælingu sem mælir steinefnamagnið í beininu og hversu þétt það er. Sérfræðingar telja að beinþéttnimæling sé áreiðanleg mæling sem getur spáð fyrir um áhættu beinbrota.
2. Þú ert grannvaxin(n) að eðlisfari og smábeinótt(ur).
Því miður ef þú er grannvaxin(n) eða smábeinþótt(ur) þá hefur þú minni forða í beinunum og það eykur líkurnar á beinþynningu, jafnvel tiltölulega snemma á ævinni. Það þýðir samt ekki að þeir sem eru stórgerðir fái ekki beinþynningu heldur að þeir sem eru smábeinóttir eru líklegri því þeir mega við minna beintapi.
Á aldrinum milli 20 – 25 ára náum við hámarksbeinþéttni og við byrjum að tapa beini fyrir fertugt. Hversu hratt beintapið er ræðst af erfðaþáttum og lífsháttum. Mataræði og hreyfing skipta máli auk fleiri þátta.
Hvað er til ráða?
Ef þú ert yngri en 40 ára gerðu allt sem þú getur sem stuðlar að heilbrigðum beinum. Hvað mataræði varðar er mikilvægt að borða kalkríka fæðu en kalkið fáum við úr mjólkurafurðum og ýmsu dökku grænu blaðgrænmeti, baunum og fræjum. Hvað hreyfingu varðar er nauðsynlegt að hreyfingin feli í sér álag á beinin s.s. skokk, hlaup og hopp.
Ef þú ert eldri en 40 ára þá skaltu halda áfram að borða kalkríka og næringargóðan mat og jafnvel bæta við kalki-magnesíum og D-vítamíni. Styrktarþjálfun /viðnámsþjálfun auk göngu og skokks er einnig ráðlagt, en sýnt hefur verið fram á að styrktarþjálfun hjálpar í baráttunni við beintapið.
3. Bólgueyðandi lyf, sykursteralyf s.s. prednisolon hafa áhrif á beinin.
Þeir sem þurfa að taka sykursteralyf til lengri tíma eiga það á hættu að beinin tapi kalki og öðrum næringarefnum. Fólk sem er með Crohns sjúkdóminn, Rauða hunda (Lupus), eða gigtarsjúkdóma er í aukinni áhættu á að fá beinþynningu miðaða við jafnaldra sem ekki eru með þessa sjúkdóma. Ástæðan er m.a. áhrif lyfjanna sem það þarf að taka til að meðhöndla sjúkdómana á beinin. Þetta á frekar við um konur því þær eru líklegri til að fá þessa sjúkdóma og þær eru í aukinni áhættu vegna þess að styrkur estrógens (kvenhormón) skiptir miklu máli til að viðhalda heilbrigðum beinum. Það eru fleiri lyf en sykursterar sem einnig geta valdið beinþynningu.
Hvað er til ráða?
Ef þú ert að taka sykursteralyf ráðfærðu þig við lækninn þinn varðandi vernd fyrir beinin. Ráðlagt er við upphaf meðferðar að sé gerð beinþéttnimæling til að kanna hveru vel beinin þola meðferðina. Einnig er hægt að gera 24-kls. greiningu á kalki í þvagi og einnig er hægt að mæla D-vítamín styrk í blóðinu. En kalk og D-vítamín eru nauðsynleg fyrir heilbrigði beina.
Ef þú ert á langvarnandi sykursterameðferð er einnig ráðlagt að fara í röntgenmyndatöku á hryggnum til að fylgjast með því hvort hryggjarbolirnir séu að falla saman. Í vissum tilfellum ráðleggja læknar inntöku beinþéttnilyfja (biphosphonates).
4. Reykingar.
Sérfræðingar vita ekki nákvæmlega hvernig reykingar skemma beinin en það er óyggjandi samvæmt rannsóknum að reykingar hafa neikvæð áhrif á beinin. Það er há tölfræðileg fylgni milli beinþynningar og reykinga.
Hvað er til ráða?
Það kemur ekkert annað til greina en draga úr / hætta reykingum. Góðu fréttirnar eru þær að það skiptir ekki máli á hvaða aldri þú ert þegar þú hættir, áhrif á beinin verða alltaf jákvæð og líkaminn bregst vil við breytingunni.
5. Óhófleg neysla áfengis.
Vínandi (alkólhól) veikir beinin; hann dregur kalk og önnur steinefnin úr beinunum. Því meira sem þú drekkur þeim mun meiri líkur á að þetta gerist. Konur eru viðkvæmari fyrir þessari tegund beintaps en karlar.
Hvað er til ráða?
Eina ráðið er að draga úr áfengisneyslu.
6. Mjólkuróþol eða aðrar ástæður þess að mjólkurvörur verða ekki fyrir valinu.
Mjólk er einn besti beinbyggirinn, ekki einungis vegna þess að hún er kalkrík heldur einnig vegna þess að hún er mjög næringarrík. Fjörmjólk er sérstaklega góð því hún er bætt með D-vítamíni.
Hvað er til ráða?
Það verður að finna aðra kalkgjafa s.s. kalkbætta sojamjólk og taka D-vítamín og kalk í töflum. Hins vegar er alltaf best ef hægt er að fá öll næringarefni með fæðunni sé þess kostur.
7. Átröskun.
Saga um lystarstol er hættumerki fyrir beinþynningu. Það er vegna þess að lág líkamsþyngd, sérstaklega ef hún er ekki eðlislæg, lækkar styrk hormóna sem veldur því að tíðablæðingar stöðvast. Allt sem veldur því að styrkur kvenhormóna lækkar truflar eðlilega beinbyndum.
Hvað er til ráða?
Ef þú ert með sögu um lystarstol eða lotugræðgi leitaðu ráðgjafar hjá sérfræðingi. Það er mikilvægt að ná tökum á vandamálinu heilsunnar vegna og til að vernda beinin fyrir framtíðina. Gott er að drekka Fjörmjólk sem er D-vítamín bætt og taka inn kalktöflur með magnesíum og D-vítamíni til að halda beinum og tönnum sterkum.
8. Aðeins fyrir konur: Eru tíðablæðingar óreglulegar eða sjaldan?
Lágur styrkur estrógens eru oftast orsök þess að tíðablæðingar stöðvast eða ruglingur verður á tíðahringnum. Því miður veldur það einnig beintapi.
Hvað er til ráða?
Ef blæðingar eru óreglulegar eða þú ert undir kjörþyngd, talaðu við lækni og fáðu greiningu á vandamálinu og viðeigandi meðferð.
9. Fjölskyldusaga um beinþynningu fyrir fimmtugt eða fyrir tíðahvörf.
Fjölskyldusaga er ein sterkasta vísbendingin um áhættu beinþynningar. Ef þú kemur úr fjölskyldu þar sem eldri fjölskyldumeðlimir eru með sögu um beinbrot, slaka líkamsstöðuðu eða hafa tapað líkamshæð ( um meira en 3 cm) er líklegt að þessir ættingjar séu með beinþynningu, hvort heldur hún hefur verið greind eða ekki. Það eykur áhættu þína á fá beinþynningu!
Hvað er til ráða?
Taktu saman heilsufarssögu nær-fjölskyldu þinnar með því að tala við foreldra þína og foreldra þeirra og hvern þann sem getur gefið þér upplýsingar. Ef það er saga um beinþynningu í fjölskyldunni, greindu lækni þínum frá því (mikilvægt) og ráðfærðu þig við hann um beinþéttnimælingu.
10. Hvítur eða asískur uppruni, kona og yfir fimmtugt.
Þó þú sért einungis með einn af þessum áhættuþáttum eykur það líkur þínar á beinþynningu. Ef allir þessir þrír áhættuþættir eiga við þig þá margfaldast áhættan á beinbrotum í framtíðinni.
Fyrir nokkrum árum var talið að konur af afrískum-amerískum uppruna væru ólíklegar til að fá beinþynningu. Hins vegar hafa nýlegar rannsóknir sýnt að lág beinþéttni er algengari en áður var talið.
Ef þú ert sextug, sjötug eða eldri vertu vakandi yfir áhættuþáttum beinþynningar. Beinþynning eykst með aldrinum og sérfræðingar áætla að eftir 75 ára aldur muni um 90% kvenna brotna af völdum beinþynningar.
Hvað er til ráða?
Ekki er hægt að hafa áhrif á uppruna sinn, kyn eða aldur. En með því að þekkja áhættuþætti þína og fara eftir ráðleggingum þeim viðkomandi getur þú dregið úr líkum á að brotna af völdum beinþynningar. Ef þú ert eldri en 50 ára og mælingar sýna að beinþéttni þín er lág getur þú ráðfært þig við lækni um hvort ráðlegt sé að taka in beinþéttnilyf eða grípa til sértækra forvarna.