Í tilefni 20 ára afmælis Beinverndar var haldin ráðstefna þann 4. maí s.l. í sal DeCode að Sturlugötu 8 í Reykjavík. Á ráðstefnunni voru margir fróðlegir fyrirlestrar. Ólafur Ólafsson fv. landlæknir og fyrsti formaður Beinverndar greindi frá tilurð félagsins og fyrstu skrefunum. Gunnar Sigurðsson, pró fessor emeritus, upplýsti þátttakendur um mjaðmarbrot á Íslandi og síðan tók prófessor Björn Guðbjörnsson, fv. formaður við og ræddi um meðferð við beinþynningu. Þessi þrír heiðursmenn voru síðan heiðraðir fyrir sitt framlag fyrir félagið því án þeirra hefði starfsemin aldrei orðið eins öflug og raun ber vitni.
Eftir hollar og kalríkar veitingar í kaffihlénu fræddi núverandi formaður Beinverndar, Anna Björg Jónsdóttir öldrunarlæknir, ráðstefnugesti um verkefni sem verið er að setja á stofn á Landspítalanum undir vinnuheitinu Grípum brotin. Þetta verkefni er hluti af alþjóðlegu átaki um bætta þjónustu til að koma í veg fyrir endurtekin beinbrot af völdum beinþynningar.
Forvarnir eru mikilvægur þáttur beinverndarstarfsins og þar ber hæst næring og hreyfing. Tinna Eysteinsdóttir, PhD. í næringarfræði ræddi um mikilvægi góðrar næringar til vaxtar og viðhalds sterkra beina og dagskránni lauk með erindi Ásdísar Halldórsdóttur, íþróttafræðings, um heimaleikfimi þar sem fólk fær aðstoð heima hjá sér til að styrkja líkamann.
Ráðstefnugestir fóru ánægðir heim og vel upplýstir um ýmsa þætti er snerta beinþynningu og varnir gegn henni.
Dagskrá:
15:00 Halldóra Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Beinverndar, setur ráðstefnuna
15:10 Ólafur Ólafsson fv. landlæknir segir frá stofnun Beinverndar
15:30 Gunnar Sigurðssons, prófessor emeritus, Hvað segir saga mjaðmarbrota á Íslandi okkur
15:50 Björn Guðbjörnsson, prófessor, Lyfjameðferð og beinþynning
16:10 kaffihlé
16:40 Anna Björg Jónsdóttir, öldrunarlæknir og formaður Beinverndar, Grípum brotin
17:00 Tinna Eysteinsdóttir, PhD. í næringarfræði, Næring við hæfi
17:20 Ásdís Halldórsdóttir, B.S. í íþróttafræði, Hraust og hress í heimahreyfingu
17:40 Umræður og ráðstefnuslit.