Sigríður Lára Guðmundsdóttir1,6, Díana Óskarsdóttir2,5, Ólafur Skúli Indriðason3, Leifur Franzson4, Gunnar Sigurðsson1,2,5
1Innkirtla- og efnaskiptasjúkdómadeild, 2beinþéttnimælistofu, 3nýrna-sjúkdómadeild , 4erfða- og sameindalæknisfræðideild Landspítala, 5læknadeild HÍ, 6Human Movement Sciences Program, Norwegian University of Science and Technology
Inngangur: Markmið rannsóknarinnar var að rannsaka áhættuþætti beintaps á mjaðmarsvæði hjá 70 ára konum yfir níu ára tímabil.
Efniviður og aðferðir: Upphaflega tóku 308 konur þátt en 162 komu til lokarannsóknar. Meðalrannsóknartími var 9,12 ár. Beinþéttni í lærleggshálsi, lærhnútum og sameiginlega sem mjöðm var mæld með dual x-ray absorptiometry (DXA) árin 1997-1998, 2003-2004 og 2007. Kannað var beintap og samband þess við: þyngd, vöðva-og fitumassa, beinumsetningarvísa, kyn og kalkhormón, D-vítamín og lífsstíl samkvæmt spurningakveri.
Niðurstöður: Árlegt beintap var að meðaltali 0,83% í lærleggshálsi, 0,47% í lærhnútum og 0,53% í mjöðm (p<0,05 milli mælistaða). Lágt gildi D-vítamíns í sermi 1997-1998 tengdist auknu beintapi í lærleggshálsi (r=0,21, p<0,01). Mikið beintap á fyrra tímabili og hátt gildi beinumsetningar (CTX) í sermi 2003-4 tengdust auknu beintapi í lærleggshálsi á síðara tímabili en gönguferðir voru verndandi. Beintap í lærleggshálsi, lærhnútum og mjöðm var 3,4%, 4,9% og 5,8% meira hjá konum sem léttust en hjá konum sem viðhéldu eða juku líkamsþyngd (p<0,01). Beintap hafði sterkari tengsl við breytingar á fitu- en vöðvamassa.
Ályktanir: Þyngdartap var marktækur áhættuþáttur fyrir beintapi á mjaðmarsvæði og hvetja ætti eldri konur til að viðhalda líkamsþyngd sinni. Lágt gildi D-vítamíns var áhættuþáttur fyrir beintapi í lærleggshálsi og því ætti að leggja áherslu á næga inntöku þess. Mismunandi þættir hafa áhrif í lærleggshálsi og lærhnútusvæði. Þrátt fyrir margar breytur sem kannaðar voru er enn margt óútskýrt varðandi beintap sem verður með hækkandi aldri.
Heimild: Læknablaðið 2009 (fylgirit) 95. árgangur.