Kristín Siggeirsdóttir1,2, Thor Aspelund1,6, Gunnar Sigurðsson3, Brynjólfur Mogensen3, Lenore Launer4, Tamara Harris4, Brynjólfur Y. Jónsson5 , Vilmundur Guðnason1,6
1Hjartavernd, 2Janus endurhæfing ehf., 3Landspítala, 4Öldrunarstofnun bandaríska heilbrigðisráðuneytisins, Bethesda, 5bæklunardeild háskólasjúkrahússins í Malmö, 6HÍ
Inngangur: Öldruðum fjölgar og því er mikilvægt að rannsaka hvaða þættir hafa áhrif á styrk og hreyfifærni. Markmiðið var að skoða áhrif hryggbrota og vitrænnar skerðingar á styrk og hreyfifærni einstaklinga, fylgisjúkdóma og sjúkrahúsinnlögn.
Efniviður og aðferðir:Einstaklingum úr öldrunarrannsókn Hjartaverndar 2002-2006 (n=5.371) var skipt í þrennt eftir brotasögu: engin brot, önnur brot en hryggbrot og hryggbrot. Færni var mæld með “Timed up and go” (TUG), sex metra göngu, grip- og lærisstyrk. Brotagagnagrunnur Hjartaverndar var notaður til að staðfesta beinbrot. Vitræn skerðing var staðfest af samráðsnefnd.
Niðurstöður:Algengi hryggbrota jókst með aldri og var marktækt hærra hjá konum (p<0,0001). Áhrif hryggbrota gætti svipað hjá báðum kynjum en konur höfðu almennt lakari færni. Hnignun í færni samkvæmt öllum færniprófum var á milli brotahópa. Óbrotnir stóðu sig best en hryggbrotnir verst. Í sex metra göngu, TUG og lærisstyrk stóðu konur með hryggbrot sig marktækt lakar en þær óbrotnu. Miðað við óbrotna höfðu einstaklingar með hryggbrotasögu oftar lagst inn á sjúkrahús líkindahlutfall (odds ratio, OR) 2,8 (1,8-4,4) og einnig samkvæmt framsýnni 30 mánaða eftirfylgni, hættuhlutfall (hazard ratio, HR) 1,2 (1,1-1,3) p<0,0001. Karlar lögðust oftar inn en konur. Mjaðmarbrot höfðu ekki truflandi áhrif á niðurstöðurnar. Óbrotnir dvöldu skemst inni á sjúkrahúsi og hryggbrotnir lengst, karlar lengur en konur (p<0,0001). Hryggbrotnir höfðu marktækt meiri bakverki, magavandamál og tóku meiri verkjalyf. Þetta útskýrir aðeins lítinn hluta af auknum legudagafjölda. Vitræn skerðing hafði áhrif á árangur færniprófa en ekki var um víxlverkun við beinbrot að ræða.
Ályktanir:Einstaklingar með sögu um hryggbrot eru í aukinni hættu á að lenda á sjúkrahúsi og liggja lengi inni. Hreyfifærni og styrkur þeirra er lakari og verkjalyfjataka meiri. Vitræn skerðing hefur í för með sér lakari færni en er óháð beinbrotasögu.
Heimild: Læknablaðið 2009 (fylgirit 58) 95. árgangur.