Niðurstöður könnunar sem alþjóða beinverndarsamtökin IOF létu gera, sýna að almenningur gerir sér almennt grein fyrir því að næring skiptir máli fyrir beinheilsuna. Hins vegar voru fáir sem vissu að D-vítamín er mikilvægt fyrir beinin.
Könnunin var gerð í maí og júní 2006 og voru um 1200 þátttakendur. Beindist hún sérstaklega að því hvað svarendur vissu um beinþynningu s.s. algengi, áhættuþætti, persónulega áhættu og hvernig mataræði getur dregið úr áhættunni sjúkdómnum.
Flestir vissu að kalk er mikilvægt byggingarefni fyrir beinin og að beinþynning einkennist af stökkum beinum (95%), að léleg fæða eykur áhættuna (85%) og að konur eru í meiri áhættu en karlar (81%). Svarendur voru sér nokkuð meðvitaðir um sína eigin áhættu og taldi um helmingur þeirra sig vera í einhverri áhættu á að fá beinþynningu. Tveir af hverjum fimm þekktu persónulega einhvern sem var með beinþynningu og einn af hverjum fjórum þekktu einhvern innan sinnar fjölskyldu sem var með sjúkdóminn.
Neysla áfengis í óhófi og reykingar voru þeir áhættuþættir beinþynningar sem fæstir vissu um.
Þótt flestir þekktu að kalk væri mikilvægt byggingarefni fyrir beinin (99%), vissi einungis einn af hverjum þremur að D-vítamín er einnig nauðsynlegt fyrir beinin. Það kom fram að svarendur vissu ekki úr hvaða fæðutegundum hægt væri að fá D-vítamín, en D-vítamín fæstu úr feitum fiski, eggjum, lifur, rauðu kjöti og þorskalifur. Hér á Íslandi er auðveldast að fá D-vítamínið úr lýsi.
Þó að flestir er þátt tóku í könnuninni væru sér meðvitaðir um sjúkdóminn vissu 75% aðspurðra ekki hversu algengur hann er þ.e. að þriðja hver kona brotnar af völdum beinþynningar. 50% þeirra sem svöruðu könnuninni vissu ekki að beinþynning er algengari meðal kvenna en brjóstakrabbamein.