Októbermánuður er jafnan annasamur hjá Beinvernd og margt á döfinni, þar ber hæst hinn alþjóðlegi beinverndardagur sem er 20 október ár hvert. Að þessu sinni er yfirskrift dagsins KARLAR OG BEINÞYNNING.
Beinverndarátakið í tilefni beinverndardagsins hófst með því að leikmönnum íslenska knattspyrnulandsliðsins var boðið í beinþéttnimælingar hjá Beinvernd í undirbúningi sínum fyrir landsleikinn gegn Svíum.
Niðurstöður þessarar stuttu heimsóknar Beinverndar sýndu að íslenskir knattspyrnumenn eru að jafnaði með beinþéttni langt yfir meðallagi og eins og einn landsliðsmaðurinn orðaði það “íþróttir og hollt líferni er greinilega að virka hjá mér”. Það er því mikilvægt að forvarnarstarf sé öflugt og nauðsynlegt að tryggja forvörnina alla ævi. Þar skiptir hvað mestu máli reglubundin líkamleg hreyfing og mataræði sem inniheldur D-vítamín og kalk.