232 beinverndarfélög innan alþjóða beinverndarsamtakanna IOF (International Osteoporosis Foundation) héldu upp á alþjóðlegan beinverndardag þann 20. október sl. Félögin eru staðsett í 98 löndum í öllum heimsálfum. Að þessu sinni var athyglinni beint að næringunni sem beinin þurfa til að þroskast og viðhalda styrk sínum, allt frá vöggu til grafar.
Sjúkdómurinn beinþynning er stundum skilgreindur sem barnasjúkdómur með afleiðingar öldrunarsjúkdóms. Bernsku- og unglingsárin eru það tímabil ævinnar, þegar vöxtur beina er mestur og þá ræðst hve sterk og þétt beinin verða. Það er á þessum tíma sem lagt er inn í „beinabankann“ og við byrjum strax að taka út úr honum á fullorðinsárum, af innistæðu sem verður að endast okkur ævilangt.
Í upphafi skal endinn skoða. Verðandi mæður og mæður með börn á brjósti þurfa að fá þá næringu sem tryggir að börnin þroskist eðlilega og þær viðhaldi beinþéttni sinni. Þær þurfa ekki sérfæði á meðgöngu, en hollur, fjölbreyttur matur er lykilatriði. Þó ber að hafa í huga, að kalkþörf móður eykst á meðgöngu þar sem bein barnsins taka til sín mikið af kalki frá móðurinni. Ráðlagður dagskammtur af kalki hjá verðandi móður er því um 900 mg. D-vítamín er nauðsynlegt til að kalkið nýtist, en D-vítamínskortur móður getur haft áhrif á beinþroska barnsins og þurfa flestar mæður að taka D-vítamín aukalega. Ráðlagður dagskammtur af D-vítamíni er 15 míkrógrömm.
Beinvernd leitaðist við að vekja athygli á þessum mikilvægu lýðheilsuskilaboðum. Greinar vour skrifaðar í blöðin, viðtöl í útvarpi og sjónvarpi og auglýsingar birtar í fjölmiðlum, allt til að minna okkur á að mataræðið á í okkur hvert bein og við verðum að borða fjölbreytta holla fæðu sem er rík af kalki, D-vítamíni og próteinum auk snefilefna.