Alþjóðlegi beinverndardagurinn er í dag, 20. október. Beinvernd ásamt 219 beinverndarfélögum í 96 löndum halda upp á daginn til að vekja fólk til vitundar um að beinþynning er alvarlegt heilsufarsvandamál. Yfirskrift Beinverndardagsins á alþjóðavísu er „Sterkar konur gera aðra í kringum sig sterkari”. Áherslan hjá Beinvernd er hins vegar að opna nýja heimasíðu félagsins og efla forvarnarstarf á landsvísu. Heimasíðan og nýr beinþéttnimælir sem íslenskir kúabændur færðu Beinvernd að gjöf munu skipa lykilhlutverk í því forvarnarstarfi. Heilsugæslum landsins hefur nú þegar borist bréf vegna samstarfs um mælingar og beinverndarfræðslu og hefur Beinvernd miklar væntingar til þess að það verkefni skili góðum árangri.
Beinþynning er sjúkdómur í beinum sem veldur því að beinmassin minnkar og misröðun verður í innri byggingu beinsins sem leiðir til aukinnar hættu á beinbrotum. Beinþynning verður þegar beinmagnið minnkar hraðar en líkaminn endurnýjar það. Flest brot af völdum beinþynningar verða á framhandlegg, upphandlegg mjöðm og hryggjarliðum og getur valdið miklum verkjum, verulegri hömlun og jafnvel dauða. Á heimsvísu er talið að beinbrot af völdum beinþynningar verði á þriggja sekúndna fresti. Hér á landi verða á milli 1400 og 1500 beinbrot vegna beinþynningar á ári eða um þrjú til fjögur beinbrot á dag. Við miðjan aldur mun ein af hverjum þremur konum og einn af hverjum fimm körlum brotna af völdum beinþynningar síðar á ævinni en áhættan eykst með auknum aldri.