Þann 20. október ár hvert heldur Beinvernd upp á hinn alþjóðlega beinverndardag ásamt 192 félögum í 94 löndum. Að þessu sinni er lögð áhersla á að vekja athygli á starfi beinverndarfélaga.
Fréttabréf Beinverndar hafa komið út tvisvar á ári síðan árið 2003 og verið dreift á heilsugæslustöðvar, sjúkrahús og fleiri valda staði. Núna á árinu 2009 kemur fréttabréfið út einu sinni en að þessu sinni mun það berast inn á öll heimili í landinu. Þannig leitast Beinvernd við að koma boðskap sínum á framfæri til sem flestra.
Auk þess að vekja athygli á starfsemi Beinverndar þá er fréttabréf sem þetta góður vettvangur til þess að vekja almenning til vitundar um beinþynningu. Þekking er besta vopnið gegn sjúkdómnum. Því miður eru enn of margir sem vita lítið um beinþynningu og úr því þarf að bæta. Enn fremur eru vonir bundnar við að fréttabréfið minni íslensk stjórnvöld á mikilvægi forvarnarstarfs gegn sjúkdómnum því kostnaður samfélagsins sem af honum hlýst er gríðarlegur.
Auk þess eru í blaðinu viðtöl við landsliðsfólkið okkar Snorra Stein Guðjónsson og Margréti Láru Viðarsdóttur, beinlínis hollar mataruppskriftir og krakkasíður og margt skemmtilegt.
20. október er einnig alþjóða kokkadagurinn. Þann dag nota matreiðslumenn til vekja athygli á faginu og mikilvægi þess í okkar daglega lífi með því að leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Félagið Beinvernd og Klúbbur matreiðslumeistara hafa á undanförnum árum tekið höndum saman á þessum sameiginlega degi félaganna. Að þessu sinni munu matreiðslumeistara elda hádegisverð fyrir sjúklinga og starfsfólk Grensásdeildar Landspítlans og vekja þannig athygli á mikilvægi holls matarræðis fyrir heilbrigði beina. Fulltrúar frá Beinvernd verða á staðnum og afhenda veglegt fréttabréf sem kemur út þennan dag.