Í dag, 20. október er alþjóðlegur Beinverndardagur.
Beinvernd, sem er félag áhugafólks um beinþynningu jafnt leikra sem lærðra, heldur upp á daginn ásamt 179 beinverndarfélögum innan alþjóða beinverndarsamtakanna IOF í yfir 80 löndum. Þema dagsins að þessu sinni er hlutverk fæðu og næringar í myndun og viðhaldi sterkra beina undir yfirskriftinni BEINLÍNIS HOLLT! Það vill svo skemmtilega til að alþjóðlegur dagur matreiðslumanna er einnig 20. október og af því tilefni hafa þessi samtök snúið bökum saman á alþjóðavísu. Beinvernd og klúbbur meistarakokka vinna saman að þríþættu verkefni í tilefni dagsins sem felst í heimsóknum í nokkra grunnskóla þar sem matur er eldaður á staðnum. Meistarakokkur í fullum skrúða mun ræða við nemendur og starfsfólk og skólunum verður gefin nýr fræðslubæklingur frá Beinvernd. Auk þess munu 30 veitingahús og 30 mötuneyti bjóða upp á beinlínis hollan rétt dagsins þennan dag.