Beinvernd kom að máli við Annie Mist.
Hvar og hvenær ertu fædd?
Ég fæddist í Reykjavík þann 18. september árið gengis.
Hvar sleistu barnsskónum?
Fyrstu árin mín var ég í Vík í Mýrdal. Þegar ég var 6 ára flutti ég til Noregs og bjó þar í eitt ár. Síðan þá hef ég verið í Kópavoginum.
Hvenær byrjaðir þú í íþróttum og hvaða íþróttir hefur þú stundað?
Ég byrjaði í fimleikum hjá Gerplu eftir að við fluttum heim frá Noregi, þá aðallega til að vera með frænkum mínum en á þeim tíma voru nokkrar þeirra í fimleikum. Ég festist svo í fimleikunum og var það íþróttin mín þar til ég byrjaði í Menntaskólanum í Reykjavík en þá var ég nýkomin í landsliðshópinn. Ég var búin að vera aðeins í dansi með síðasta árinu mínu í fimleikunum og tók inntökupróf í Listdansskóla Íslands. Ég komst þangað inn en færði mig fljótlega yfir í JSB þar sem ég fór á listdansbraut. Með dansinum byrjaði ég í Boot Camp. Sautján ára byrjaði ég síðan í stangarstökki með ÍR. Mér gekk mjög vel þar og landaði nokkrum Íslandsmeistaratitlum. Ég var alltaf í Boot Camp-inu með hinum íþróttunum mínum og það var í gegnum það sem ég endaði á að taka þátt í fyrsta CrossFit mótinu mínu þegar ég var 19 ára gömul. Ég vann það mót og komst í kjölfarið á heimsleika CrossFit sama ár. Síðan þá hef ég verið gjörsamlega háð CrossFit og þegar ég þurfti að velja á milli þess að halda áfram í stangarstökkinu eða flytja mig yfir í CrossFittið var það mjög erfitt val. Núna sé ég hins vegar að ég hef loksins fundið eitthvað sem á algerlega við mig og sé ekki eftir ákvörðuninni. Núna æfi ég og kenni CrossFit í CrossFit BC á Suðurlandsbrautinni.
Helstu áhrifavaldr, fyrirmyndir og stuðningur?
Það eru margir sem að ég hef litið upp til í gegnum tíðina. Ég hef aldrei haft samt einhvern einn ákveðinn sem að ég vil líkjast. Þeir sem að ég hef alltaf litið upp til eru foreldrar mínir og fólk sem vinnur hart að því að ná þeim markmiðum sem að það hefur sett sér. Það eru lífsins fyrirmyndir að mínu mati.
Varstu vakandi fyrir því að borða hollan og góðan mat á aldrinum 12 – 15 ára?
Ég get ekki sagt að ég hafi verið í ströngu mataræði á þeim tíma. Það var meira þannig að það var mikilvægara fyrir mig að reyna að borða nóg með fimleikunum enda fór töluverð orka í þær æfingar.
Hvað eru helst að fást við núna?
Í augnablikinu er ég í Boston og að ferðast um heiminn fyrir hönd Reebok í stórri auglýsinga- og kynningarherferð fyrir samstarf Reebok og CrossFit. Þetta er fyrsta önnin mín sem að ég tek mér frí frá háskólanámi. En með þessu stofnaði ég mína eigin stöð, CrossFit BC, í samstarfi við Elvar og eigendur Boot Camp og erum við núna að vinna í að flytja í stærra og betra húsnæði í Elliðarárdalnum í janúar 2012.
Hvernig gengur að sameina nám/atvinnu og að vera í afrekshópi í íþróttum?
Það fer að sjálfsögðu meiri vinna í að skipuleggja vel þann tíma sem ég hef fyrir hvert og eitt og að forgangsraða en mér finnst það hafa gengið nokkuð vel hingað til. Ég er að vinna við að byggja upp það sem ég hef mikinn áhuga á og ég hef alltaf haft gaman af þvi að vera í skóla. Það sem að ég get sagt að ég eigi erfiðast með að standa við er að mæta í tíma.
Framtíðarplön?
Ég er viss um að CrossFit muni alltaf vera stór hluti af lífi mínu. Ég hef fundið eitthvað sem ég hef gífurlegan áhuga á og hef gaman af. Ég er að byggja upp fyrirtæki sem að ég sé að sjálfsögðu fyrir mér að muni stækka og ég nýt þess virkilega að kenna og miðla áfram öllu því sem ég hef lært. Ég er samt ákveðin í því að klára skólann með þessu og sé ekki fram á að fara að hætta sjálf að æfa og keppa á næstunni, ég á mörg ár framundan í greininni.
Hefur þú þurft að færa miklar fórnir fyrir CrossFit?
Það er ekkert sem að ég myndi líta á sem fórn. Þetta er allt spurning um val og það sem ég hef áunnið og fengið út úr því er miklu meira en nokkuð sem ég get sagt að ég hafi fórnað.
Ætlar þú að halda áfram í crossfit á næstu misserum?
Já tvímælalaust!
Til að ná árangri þarf að hugsa vel um sig, þjálfunina, næringuna o.s.frv. Getur þú sagt okkur frá því hvernig þú ferð að í þeim efnum?
Öll hreyfing er af hinu góða en hver og einn verður að finna það sem hentar honum best. Líkamleg hreyfing hægir á beineyðingu og niðurbroti vöðva. Það er ekki nóg að hreyfa sig bara, það þarf líka að sjálfsögðu að hugsa um mataræðið. Að mínu mati er ekkert eitt sem hentar öllum. Ég hugsa um það sem ég set ofan í mig. Ég reyni að velja lítið unninn mat, borða vel af próteini, hugsa um að fá réttu kolvetnin og man líka eftir hollu fitunni. Ég drekk mikið af mjólkurvörum því að ég finn að líkaminn minn vinnur vel úr þeim. Þetta snýst allt um að vera meðvitaður um það sem maður setur ofan í sig því að við erum með einn líkama út lífið og þetta er orkan sem að við erum að gefa honum til að vinna úr.
Skilaboð til ungu kynslóðarinnar?
Ekki vera hrædd við að prufa nýjar íþróttir og finnið það sem að hentar ykkur best.
Skilaboð til þeirra sem eldri eru?
Hreyfing er nauðsynleg fyrir alla aldurshópa. Hvort sem þú notar göngustaf eða hlaupaskó í daglegu lífi þá er hreyfing nauðsynleg fyrir alla til að halda góðri heilsu.
Beinvernd óskar Annie Mist góðs gengis