Foreldrar athugið: Þegar „beinabanki“ barna ykkar er byggður upp, minnka líkur á beinþynningu hjá þeim síðar á lífsleiðinni. Þetta er staðreynd.
Vissuð þið að unglingarnir ykkar eru hugsanlega að setja sig í aukna hættu á beinþynningu síðar á ævinni, ef þeir huga ekki að heilsu beina sinna NÚNA á mikilvægasta vaxtar- og þroskaskeiði beinanna sem unglingsárin eru? Ein ástæða þess að beinþynning hefur verið kölluð „barnasjúkdómur með afleiðingar öldrunarsjúkdóms“ er sú að grunnurinn að beinheilsunni er lagður á uppvaxtarárum.
Lengsta vaxtartímabil beinanna er á unglingsárum eða kynþroskaaldrinum. Mesti beinþroskinn á sér stað á aldrinum 11 – 17 ára. Bein stúlkna byggjast upp eins mikið á tveimur árum í kringum fyrstu tíðablæðingarnar sem samsvarar beintapi á síðustu fjórum áratugum ævi þeirra. Um 26 ára aldur hefur beinþéttnin náð hámarki og helst þannig til 35 ára aldurs en þá byrja beinin hægt og rólega að tapa beinmassa. Hjá konum verður síðan hratt beintap eftir tíðahvörf. Besta forvörnin gegn beinþynningu er að lifa heilbrigðu lífi strax í bernsku því þannig tryggjum við uppbyggingu beinanna og aukum líkur á hámarks beinþéttni sem vörn gegn beinþynningu á efri árum.
Líkingin við „beinabankann“ er því alveg frábær: Því meira bein sem við „leggjum inn“ á unglingsárum – þeim mun meira eigum við til þess að „taka út“ síðar á ævinni. Niðurstaðan er sú að það borgar sig fyrir unglingana að lifa heilsusamlegu lífi.
Efni fengið frá alþjóða beinverndarsamtökunum IOF