Hægt er að greina beinþynningu auðveldlega með beinþéttnimælingu sem er besta aðferðin til að segja til um hve miklar líkur eru á beinbrotum. Fyrir nokkru síðan gáfu íslenskir kúabændur Beinvernd lítinn, færanlegan beinþéttnimæli, svokallaðan hælmæli, sem byggir á hljóðbylgjutækni og mælir hælbeinið en sú mæling gefur vísbendingu um ástand beinanna. Þessi mælir er afar hentugur til að mæla beinþéttni og kanna hvort ástæða sé til nánari greiningar sem gerð er með stærri og nákvæmari beinþéttnimæli, svokölluðum DXA-mæli. Slíkir mælar eru til á Landspítalanum í Fossvogi, Sjúkrahúsinu á Akureyri og hjá Hjartavernd. Beinþéttnimæling gefur þannig til kynna, hvort hætta er á beinbrotum á sambærilegan hátt og blóðþrýstingsmæling getur sagt til um líkur á heilablóðfalli. Mikilvægt er að beinþynning greinist snemma til að koma í veg fyrir beinbrotin því rannóknir hafa sýnt að hættan á brotum eykst eftir því sem beinþéttnin er minni.
Á fyrstu dögum sumars var mælir Berndverndar sendur austur á firði þar sem hjúkrunarfræðingur á vegum heilsugæslunnar bauð Austfirðingum upp á beinþéttnimælingar. Þessari þjónustu var vel tekið og voru margir sem létu mæla í sér beinþéttnina. Forvarnir skipta miklu máli til að koma í veg fyrir brot af völdum beinþynningar og mikilvægt er að finna þá einstaklinga sem þurfa á nánari greiningu að halda. Það er aldrei of seint að sinna forvörnum en því fyrr þeim mun meiri líkur á árangri. Helstu forvarnir auk mælinga er að tryggja nægjanlegt kalk og D-vítamín í fæðunni og hreyfa sig reglulega.
Nú er beinþéttnimælirinn á Vestfjörðum og fer síðan norður í land þó með viðkomu í Reykjavík.