Beinþynning

Beinin eru lifandi vefur sem inniheldur kalk og er í stöðugri endurbyggingu, þ.e. niðurbrot og nýmyndun eiga sér stað, enda þótt fullum vexti sé náð. Þar eru að verki bæði beinmyndunarfrumur (osteoblastar) og beinúrátur (osteoclastar).  Á aldrinum milli 20-40 ára er jafnvægi þarna á milli og beinmagnið helst stöðugt. Á þessum aldri er beinmassinn mestur.   Röskun á þessu jafnvægi beinmyndunar og beinniðurbrots veldur því að beinvefurinn rýrnar og það ástand skapast sem við köllum beinþynningu.  Beinþynning er mjög útbreiddur sjúkdómur,  milljónir manna um allan heim eru haldnir honum.  Flestir vita ekki að þeir eru með sjúkdóminn því hann er einkennalaus uns brotastigi er náð.   Með brotastigi er átt við að beinin eru orðin svo stökk og viðkvæm að þau geta brotnað við lítinn áverka.

Beinþynning - Visuals_bone

Við beinþynningu þynnist hin harða og þétta skurn beinanna og frauðbeinið sem fyllir hol þeirra gisnar.   Við þetta minnkar styrkur beinsins, þau verða stökk og hætta á brotum eykst við minnsta átak.

Algengasta orsökin fyrir röskun á þessu jafnvægi eru þær hormónabreytingar sem verða í líkama kvenna við tíðarhvörf þegar estrogen þéttnin minnkar. Estrogegn er kvenhormón sem virðist hafa verndandi áhrif á bein með því að hemja áhrif beinúrátanna (osteoclastanna). Þegar estrogen magnið minnkar verður virkni beinúrátanna meiri og beinmyndunarfrumurnar ná ekki að bæta það upp svo að bein tapast.

Beinþynning - Visuals vertebrae  Beinþynning - Visuals vertebrae

Hér að ofan eru tvær myndir af hryggjarliðum, heilbrigðum og  samföllunum.

Afleiðing beinþynningar eru beinbrot við lítinn áverka, einkum á efri árum.  Algengust þessara brota eru framhandleggsbrot, hryggsúlubrot og mjaðmarbrot.

Framhandleggsbrot gróa oftast án fylgikvilla.  Samfallsbrot á hrygg eða hrun veldur gjarnan miklum og stundum langvinnum verkjum.  Líkamshæðin lækkar með tímanum þ.e. líkaminn bognar.  Þá fylgja aflögun í vexti oft verulegar sálarþjáningar.   Lærleggshálsbrot eru alvarlegust og nær alltaf afar sársaukafullt.  Það er umtalsverð dánartíðni fyrstu vikurnar eftir brotið og margir ná aldrei fyrri getu.

Hér á landi verða a.m.k. 1300 einstaklingar fyrir beinbrotum árlega sem rekja má til beinþynningar.  Þannig verða árlega a.m.k. 2-300 mjaðmarbrot, flest innan dyra.  Hvert mjaðmarbrot  leiðir til innlagnar á sjúkrahús þar sem gera þarf uppskurð þar sem brotið er sett saman með stálnöglum.  Þetta er dýrt fyrir þjóðfélagið þ.e. kostnaður sem er a.m.k. 1-2 milljónir og ekki má gleyma þjáningum og erfiðleikum sjúklinganna.

Það er fátt sem rýrir lífsgæði eins mikið á efri árum og beinþynning.

 

TOP

Beinvernd notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Friðhelgisstillingar

Beinvernd notar vafrakökur til að bæta upplifun og greina umferð um vefinn.

Vafrakökurnar hér að neðan eru nauðsynlegar svo vefurinn starfi eðlilega.

Þessar kökur eru hluti af WordPress kerfinu.
  • wordpress_test_cookie
  • wordpress_logged_in_
  • wordpress_sec

Þessi vafrakaka vistar stillingar notandans varðandi samþykki á vafrakökum á beinvernd.net
  • CookieConsent

Hafna öllum vafrakökum
Samþykkja allar vafrakökur