Það er ekki langt síðan að beinþynning varð viðurkennd sem alvarlegt heilsufarsvandamál meðal karla. Að þessu leiti hafa karlar fallið í skugga kvenna og forvarnarumræða um heilsufar karla hefur fremur einskorðast við hjarta- og æðasjúkdóma auk krabbameina, t.d. í ristli og blöðruhálskirtli.
Þótt beinþynning sé ekki eins algeng hjá körlum og konum þá hefur hækkandi meðalaldur beggja kynja leitt í ljós að munur kynjanna varðandi beinbrot af völdum beinþynningar er minni á efri árum en áður var talið.
Það sem einkum veldur því að beinþynning er síðkomnari meðal karla er að þeir safna meiri beinmassa á yngri árum, bein þeirra eru almennt stærri og “ígildi tíðahvarfa” virðist koma síðar en minnkuð framleiðsla karlhormónsins testósteróns getur verið ein orsökum beinþynningar hjá körlum. Athyglisvert er að skertar lífslíkur og færnitap af völdum beinþynningarbrota eru meiri hjá körlum en konum af völdum sambærilegra brota. Því er spáð að á komandi árum verði hlutfallsleg aukning benbrota af völdum beinþynningar meiri hjá körlum en konum.
Beinþynning og karlar – tölfræði
Allt að þriðjungur beinbrota af völdum beinþynningar verða hjá körlum.
Fjórðungur karla hlýtur beinbrot af völdum beinþynningar.
50% þeirra karla sem ná sér eftir mjaðmarbrot missa sjálfstæði sitt að einhverju leyti og þurfa oftast einhverja heimahjúkrun eða dvöl á hjúkrunarheimili.
Allt að þriðjungur þeirra karla sem mjaðmarbrotna deyr innan 1 árs.
Hverjir eru áhættuþættir beinþynningar hjá körlum?
Meðal lífslíkur karla við fæðingu hafa hækkað umalsvert á undanförnum árum og eru núna tæplega 78 ár á Íslandi. Svipað og hjá konum þá eykst nýgengi brota verulega með hækkandi aldri. Karlar geta núna búist við því að fá fleiri sjúkdóma sem leitt geta til beintaps, tíðari bylta og beinbrota.
Það er talið að 30-60% karla, sem fengið hafa samfallsbrot í hygg, séu með undirliggjandi sjúkdóm sem stuðlar að beinþynningu.
Helstu áhættuþættir sem hafa verið tengdir beinþynningu karla:
Hækkandi aldur.
Fjölskyldusaga um beinþynningu
Lágt magn karlhormónsins testósteróns.
Hreyfingarleysi.
Léleg næring.
Lítil neysla á kalki.
Skortur á D-vítamíni.
Notkun barkstera.
Reykingar
Ofneysla á áfengi.
Hvenær vaknar grunur um beinþynningu hjá körlum?
Líkt og hjá konum þá er beinþynning einkennalaus þar til að bein brotna. Oft vaknar ekki grunur um beinþynningu hjá körlum fyrr en bein hefur brotnað sem getur einnig lýst sér sem bakverkur, kryppa í baki eða minnkuð líkamshæð. Eitt besta áhættumatið á tilvist beinþynningar áður en bein brotnar er svokölluð beinþéttnimæling. Beinþéttnimælingu ætti að gera hjá flestum þeim körlum sem hafa áhættuþætti beinþynningar eða hlotið beinþynningarbrot. Ráðlögð skimun hjá körlum með áhættuþætti hefur miðast við 70 ár sem er u.þ.b. 5 árum síðar en ráðlagt er hjá konum.
Er hægt að meðhöndla beinþynningu?
JÁ! Það er hægt að meðhöndla og fyrirbyggja beinþynningu með góðum árangri.
Ef beinþynning hefur verið greind, geta læknar ávísað lyfi eða lyfjum sem miða að því að stöðva beintapið. Auk þess vegur mataræði og líkamshreyfing þungt í að draga úr beinþynningu.
Meðferð.
Þau lyf sem mest hafa verið rannsökuð og sýnt hafa bestan árangur í meðferð beinþynningar hjá körlum eru svokölluð bisfosfónöt. Hvert tilfelli þarf að greina og meta hvort lyfjagjöf sé nauðsynleg og þá hvaða lyf henta best.
Hvað er hægt að gera til að vernda beinin og draga úr beinþynningunni?
Borða holla og næringarríka fæðu.
Tryggja nægjanlegt kalk. Neysla á mögrum mjólkurvörum er auðveld leið til að tryggja kalk úr fæðunni.
D-vítamín er nauðsynlegt til að nýta kalkið. Lýsi er auðugt af D-vítamíni.
Hætta að reykja.
Draga úr neyslu á áfengum drykkjum.
Stunda líkamsþjálfun reglulega. Þungaberandi æfingar s.s. göngur tækjaleikfimi og almennar styrkjandi líkamsæfingar.
Beinin þurfa þjálfun til að haldast sterk. Æfingarnar þurfa ekki að vera mjög erfiðar en það þarf að stunda þær reglulega. Ráðlegt er að fá ráðleggingar hjá sjúkraþjálfara um hvaða æfingar henti ef beinþynning hefur verið greind vegna þess að ákveðnar hreyfingar ætti að varast