Útdráttur úr greininni: Beinþynning og lífsgæði / mikilvægt að nýta forvarnar- og meðferðartækifæri.
Beinþynning er algengur sjúkdómur og afleiðingarnar eru ótímabær beinbrot oftast við lítinn eða engan áverka. Í dag eru áhættuþættir vel þekktir og sjúkdómsgreining auðveld með svokölluðum beinþéttnimælum. Beinbrot af völdum beinþynningar valda bráðum einkennum og oft á tíðum innlögn á sjúkrahús og flestir sem fá mjaðmabrot þurfa að gangast undir bráða skurðaðgerð. Byrði og meðferð beinþynningar hefur oft verið lýst í tölulegum stærðum en minna hefur verið vitað um líðan og líf þeirra sem brotna.
Brotin skilja þó eftir sig mein til lengri tíma sem hafa áhrif á lífsgæði viðkomandi. Til að rannsaka líðan sjúklinga með beinþynningu hafa mælitæki sem mæla heilsutengd lífsgæði verið notuð. Þau ná yfir þætti sem tengjast heilsunni sjálfri, upplifun á henni, takmörkunum og mat einstaklingsins sjálfs á aðstæðum sínum miðað við heilsufar.
Með tímabærri sjúkdómsgreiningu og réttum forvarnaraðgerðum eða meðferðarvali má fækka marktækt beinbrotum af völdum beinþynningar og þannig stuðla að farsælli öldrun.
Kolbrún Albertsdóttir hjúkrunarfr. og Dr. Björn Guðbjörnsson gigtlæknir og formaður Beinverndar.
Hægt er að lesa greinina með því að smella hér.