Brot af völdum beinþynningar eru ekki slys, að öllum líkindum hefði beinið ekki brotnað ef það væri heilbrigt.
Eitt brot leiðir af sér annað brot, það er staðreynd. Það eru tvöfalt meiri líkur á að einstaklingur sem hefur brotnað af völdum beinþynningar brotni aftur, sérstaklega ef viðkomandi fær hvorki greiningu né rétta meðferð. Kemur okkur þetta við? Já, það gerir það vegna þess að afleiðingar brotanna eru alvarlegar. Má þar nefna langvinna verki, minnkaða hreyfifærni og jafnvel fötlun sem leiðir af sér skert lífsgæði og sjálfstæði til búsetu. Auk þess er dánartíðni vegna afleiðinga mjaðmarbrota há, eða um 20-24% þeirra sem mjaðmarbrotna deyja innan árs frá broti.
Beinbrot geta verið varúðarmerki! Um helmingur sjúklinga sem fær meðferð á sjúkrahúsi vegna mjaðmarbrots hefur brotnað áður. Fyrsta brotið var varúðarmerki!! Það hefið átt að leiða til þess að sjúklingurinn fengi beinþéttnimælingu og rétta meðferð við beinþynningu. Það er sorglegt að benda á að allt of oft er ekki tekið mark á þessu “varúðarmerki” og þess vegna brotnar sjúklingurinn aftur.
Ertu eldri en 50 ára og hefur þú brotnað? Ef svo er, láttu kanna í þér beinin og taktu einnar mínútur áhættupróf sem hjálpar til að meta áhættu þína á því að brotna.