10 ár eru nú liðin frá stofnun Beinverndar en það var þann 12. mars 1997.
Ólafur Ólafsson þáverandi landlæknir var aðal hvatamaðurinn að stofun félagsins sem er félag áhugafólks, jafnt leikra sem lærðra, um beinþynningu og varnir gegn henni. Stofnendur settu sér háleit markmið sem unnið hefur verið að í 10 ár. Markmið félagsins eru:
Að vekja athygli almennings og stjórnvalda á beinþynningu sem heilsufarsvandamáli.
Að standa að fræðslu meðal almennings og heilbrigðisstétta á þeirri þekkingu sem á hverjum tíma er fyrir hendi um beinþynningu og varnir gegn henni.
Að stuðla að auknum rannsóknum á eðli, orsökum og afleiðingum beinþynningar og forvörnum gegn henni.
Að eiga samskipti við erlend félög á svipuðum grundvelli.
Félagið hefur vaxið vel og dafnað á þessum áratug og síðar á þessu ári verður haldið upp á afmælið.