Beinþynning hefur fylgt mannkyninu frá upphafi. Fundist hafa egypskar múmíur sem eru meira en 4000 ára gamlar með ummerki um beinþynningu, t.d. herðakistil eða kryppu. Í dag geta flestir vænst þess að geta staðið vel uppréttir á efri árum, þökk sé nýrri þekkingu á sjúkdómnum, greiningu, meðferð og forvörnum.
Einn af frumkvöðlum í læknavísindum 18. aldar, enski skurðlæknirinn John Hunter, uppgötvaði að þegar nýtt bein myndast í líkamanum þá er eldra bein endurunnið. Þetta ferli er í dag nefnt beinendurmyndun og var síðar sýnt fram á lykilhlutverk þess, þegar bein þynnast, þó svo að beinþynning væri ekki viðurkennd sem sjúkdómur fyrr en rúmum 100 árum eftir dauða John Hunter.
Um 1830 tók franski meinafræðingurinn Jean Georges Chretien Frederic Martin Lobstein eftir því að bein sumra sjúklinga hans voru gisnari, þ.e. með stærri holur eða göt, en bein flestra annarra, og hann fann upp hugtakið beinþynning eða á ensku osteorporosis til að lýsa því ástandi. Einni öld síðar eða um 1930 leiddi Fuller Albright sem vann á Massachusetts General Hospital hugann að því hvers vegna bein kvenna við tíðahvörf væru oft veikbyggðari en ella. Hann komst síðar að því, að þetta væri beinþynning í kjölfar tíðahvarfa (e. postmenopausal osteoporosis) og byrjaði að gefa konum kvenhormónið estrógen við þessum vanda. Slík meðferð getur þó einungis komið í veg fyrir skaða í beinagrindinni með því að hindra eða minnka beintapið. Á þessum tíma var ómögulegt að að greina beintap á fyrstu stigum sjúkdómsins
Um 1960 fóru vísindamenn að þróa næmari tæki til að greina beintap þ.m.t. svokallaða skanna (densiometers) sem gátu greint beinþéttni með geislamælingum. Þetta er gert með því að mæla hversu mikil breyting verður á orku geislans sem fer í gegnum bein í hönd, hrygg og mjöðm eða öðrum líkamshlutum. Þessi tækni var gagnleg til að greina beinþynningu á fyrstu stigum áður en beinin brotnuðu. Á svipuðum tíma uppgötvaði Herbert Fleisch efnasambandið bisfosfónat (e. bisphosphonates) sem hindrar beinniðurbrot (e. resorption). Aðrir vísindamenn uppgötvuðu efnasambönd sem kölluð eru SERMs (e. selective estrogen receptor modulators) sem geta á sama tíma hindað æxlamyndun í brjóstum og ýtt undir vöxt fruma í legi. Á þessum tíma var mjög litlum fjármunum varið í rannsóknir auk þess sem slæmar afleiðingar sjúkdómsins voru ekki þekktar eða viðurkenndar.
Árið 1984 kynnti National Institutes of Health í Bretlandi (NIH), beinþynningu sem sjúkdóm sem væri veruleg heilsufarsógn og lögð var áhersla á að hægt væri að minnka beintap með hormónameðferð, kalki, góðri næringu og líkamsþjálfun. Á næstu tveimur áratugum uppgötvuðu vísindamenn cýtókín (e. cytokines)sem hafa áhrif á þróun og virkni beinfrumanna. Þær uppgötvanir leiddu til þess að bisfosfónötin alenadronate og risedronate komu á markað sem beinverndandi lyf. Hormónauppbótarmeðferð með lyfinu Raloxifene kom á markað árið 1998 sem lyf til að koma í veg fyrir beintap hjá konum við tíðahvörf.
Þrátt fyrir langa sögu, er beinþynning enn mikil áskorun fyrir læknavísindin.
Eftir að NIH í Bretlandi viðurkenndi beinþynningu sem alvarlegan sjúkdóm voru stofnuð félög sem höfðu það að markmiði að efla rannsóknir og styðja sjúklinga. Ný tækni, lyf og þekking til að greina beinþynningu, gildi mataræðis og líkamsþjálfunar ýttu einnig undir stofnun beinverndarsamtaka um allan heim og var Ísland ekki undanskilið.
Landsamtökin Beinvernd voru stofnuð formlega þann 12. maí 1997. Ólafur Ólafsson, þáverandi landlæknir, var aðal hvatamaðurinn að stofnun félagsins. Hann taldi að í ljósi nýrrar þekkingar á leiðum til þess að draga úr beinþynningu og afleiðingum hennar, beinbrotunum, með æskilegum lífsháttum væri nauðsynlegt að upplýsa fólk á markvissan hátt um mikilvægi góðrar næringar og hreyfingar. Landsamtökin Beinvernd töldu það skyldu sína að auka fræðslu á þessu sviði og reyna á þann hátt að sporna gegn þeim mikla vanda sem væri fyrirsjánalegur á næstu áratugum. Forvarnir skipta miklu máli. Til að ná árangri er mikilvægt að koma fræðslunni til fólks meðal annars með bæklingum og á fundum.
Megin markmið félagsins eru:
Að vekja athygli almennings og stjórnvalda á beinþynningu sem heilsufarsvandamáli.
Að efla fræðslu meðal almennings og heilbrigðisstétta um beinþynningu og varnir gegn henni.
Í fyrstu stjórn félagsins voru:
Ólafur Ólafsson, formaður
Aðalmenn:
Lisa Thomsen, Kvenfélagasambandi Íslands
Páll Gíslason, Félagi eldri borgara
Laufey Steingrímsdóttir, forstöðumaður Manneldisráðs
Unnur Stefánsdóttir, leikskólakennari
Þórunn Björnsdóttir, sjúkraþjálfari
Anna Björg Aradaóttir, verkefnastjóri Heilsueflingar
Varamenn:
Gunnar Sigurðsson, prófessor
Júlíus Valsson, læknir Gigtarfélagi Íslands
Stofnaðar voru svæðadeildir á Norðurlandi, Austurlandi, Vestfjörðum og Suðurlandi. Þær eru ekki starfandi lengur en um tíma var afar öflugt starf hjá Beinvernd á Suðurlandi. Formaður Beinverndar á Suðurlandi var Anna Pálsdóttir.
Beinvernd hefur vaxið og dafnað á þessum 20 árum. Flestir Íslendingar eru meðvitaðir um beinþynningu og um mikilvægi kalks, D-vítamíns og hreyfingar fyrir beinin.
Beinvernd hefur gefið út fjölda bæklinga og fréttabréfa og hægt er að nálgast slíkt efni rafrænt á vefnum www.beinvernd.net Þar er einnig að finna mikinn fróðleik um beinþynningu, greiningu og meðferð, áhættureikninn BEINRÁÐ og alþjóðleg próf um áhættu á beinbrotum. Facebooksíða félagsins er einnig mjög virk og hægt er að sækja þar ýmsan fróðleik eða koma með fyrirspurnir.
Fræðslufyrirlestrar á vegum Beinverndar hafa verið margir. Fjölmörg félagasamtök hafa verið heimsótt, vinnustaðir, skólar, félagsstarf aldraðra svo eitthvað sé talið og fólk frætt um beinþynningu og helstu varnir gegn henni og fræðsluefni dreift.
Beinvernd á lítið ómtæki sem mælir beinþéttni í hælbeini og hefur tækið endurtekið verið lánað t.d. heilsugæslunni á landsbyggðinni til notkunar.
Árið 1999, þann 20. október á alþjóðlegum beinverndardegi, var undirritaður samstarfssamningur Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði og Beinverndar. Samningurinn gerði félaginu kleift að ráða starfamann í 50% starf til að sinna forvarnar- og fræðslustarfi og rekstri félagsins. Samstarfið hefur verið farsælt og samningurinn verðið endurnýjaður mörgum sinnum.
Beinvernd hefur frá upphafi verið aðili að alþjóða beinverndarsamtökunum IOF International Osteopororis Foundation (IOF) og hefur tekið virkan þátt í alþjóðlegu beinverndarstarfi. Þess má geta að tvisvar sinnum hefur félagið fengið viðurkenningu frá IOF fyrir framsækið starf!
Hápunktur starfseminnar á hverju ári er Alþjóðlegi beinverndardagurinn sem haldinn er 20. október. Alþjóða beinverndarsamtökin IOF leggja til ákveðið þema eða yfirskrift hverju sinni sem aðildarfélögin sameinast um að koma á framfæri þennan dag. Það er gert með auglýsingum, viðtölum, greinarskrifum, og viðburðum.
Höfundar: Anna Björg Jónsdóttir og Halldóra Björnsdóttir
Heimildir:
www.beinvernd.net