Um árabil hefur nær öll umræða um forvarnir gegn beinþynningu snúist um konur, enda er meginhluti allrar þekkingar um beinþynningu til komin vegna rannsókna þar sem þátttakendur voru eingöngu konur.
Faraldsfræðileg þekking á sjúkdómnum og hegðun hans; fjöldi beinbrota, beinumbrot og starfsemi einstakra frumna beinvefsins (þ.e. beinbyggja og beinbrjóta), árangur lyfjameðferðar og þýðing beinþéttnimælinga ásamt spágildi þeirra um beinbrot síðar á lífsleiðinni – allt þetta byggt á upplýsingum úr kvennarannsóknum! Sannleikurinn er sá að þrjú af hverjum 5 beinbrotum verða hjá körlum og þriðjungur allra beinþynningarbrota er hjá körlum. Samkvæmt nýlegri íslenskri rannsókn má gera ráð fyrir, að þriðji hver fimmtugur karlmaður hér landi verði fyrir því að beinbrotna síðar á lífsleiðinni.
Á allra síðustu árum hefur þekking á beinþynningu hjá körlum farið vaxandi og upplýsingar frá Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar sýna að 20 af hverjum þúsund 60-69 ára reykvískum körlum og 50 af hverjum þúsund 85 ára og eldri körlum beinbrotna árlega. Þá sýna erlendar rannsóknir að körlum farnast verr en konum í kjölfar beinbrota. Færni þeirra til sjálfsbjargar skerðist meira en kvenna og dánartíðni þeirra er einnig hærri miðað við jafnaldra sem ekki brotna. Líftími þeirra karla sem t.d. mjaðmarbrotna styttist um heil sjö ár. Mikilvægt er að skoða þessar algengistölur og meta afleiðingar beinbrota hjá körlum í ljósi mannfjöldaspár Hagstofunnar. Hún gerir ráð fyrir því að tala Íslendinga 65 ára og eldri komi til með að tvöfaldast á aðeins 20-30 árum.
Beinvernd hefur áætlað að árlega verði um 1200 beinbrot hér á landi vegna beinþynningar. Að öllu óbreyttu má því gera ráð fyrir allt að 3000 beinbrotum vegna beinþynningar hér á landi um 2020! Með hliðsjón af því að íslenskir karlar verða elstir karla í heiminum í dag er nauðsynlegt fyrir karla á öllum aldri, og ekki síst fyrir unga menn að gefa beinvernd gaum.
Bein karla eru bæði stærri og með þykkari beinskel en bein kvenna og þeir ná hærri hámarksbeinþéttni en konur, þannig eru þeir betur varðir gegn beinbrotum á efri árum. Karlar ná hámarksbeinþéttni á þrítugsaldri, en við 13-17 ára aldur fimmfalda drengir beinmassa sinn. Karlar “leggja því inn á beinabankann” strax á unglingsárum, en svo að innistæðan endist og sé til varnar beinbrotum á efri árum er körlum á öllum aldri nauðsynlegt, eins og raunar konum, að tryggja sér bæði kalk- og D-vítamíninntöku, reglulegar líkamsæfingar og þegar aldurinn færist yfir einnig jafnvægisæfingar til þess að forðast byltur. Þannig má með góðum lífsháttum tryggja lífsgæði karla á efri árum og spara samfélaginu miklar fjárhæðir í umönnunarkostnað.
Dr Björn Guðbjörnsson,formaður Beinverndar.
(Birtist í Morgunblaðinu í október 2004)