Formaður Beinverndar Anna Björg Jónsdóttir öldrunarlæknir og Jón Axel Pétursson framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs MS undirrituðu í lok árs nýjan samstarfssamning til eins árs. Þessi nýi samningur mun gera félaginu kleift að halda áfram öflugu forvarnar- og fræðslustarfi á nýju ári sem er afmælisár því 20 ár eru liðin frá stofnun Landsamtakanna Beinvernd. Samstarf Beinverndar og mjólkuriðnaðarins hefur verið farsæll í tæpa tvo áratugi en fyrsti samningurinn var gerður við hátíðlega athöfn á alþjóðlegum beinverndardegi 20. október 1999 í Perlunni. Leitast verður við að hafa starsemina öfluga á afmælisárinu. Það er mikilvægt í ljósi þess að beinþynning er algengur sjúkdómur í beinum sem veldur því að beinmassinn minnkar og misröðun verður í innri byggingu beinsins sem leiðir til aukinnar hættu á beinbrotum. Beinþynning verður þegar beinmagnið minnkar hraðar en líkaminn endurnýjar það. Áætlað er að önnur til þriðja hver kona eldri en 50 ára eigi á hættu að brotna vegna beinþynningar og fimmti hver karl.
Flest brot af völdum beinþynningar verða á framhandlegg, upphandlegg og hryggjarliðum og getur valdið miklum verkjum og skerðingu á færni og lífsgæðum. Á heimsvísu er talið að beinbrot af völdum beinþynningar verði á þriggja sekúndna fresti. Hér á landi verða á milli 1400 og 1500 beinbrot vegna beinþynningar á ári eða um þrjú til fjögur beinbrot á dag. Við miðjan aldur mun ein af hverjum þremur konum og einn af hverjum fimm körlum brotna af völdum beinþynningar síðar á ævinni en áhættan eykst með auknum aldri.
Helstu forvarnir gegn beinþynningu sem tengist lífsháttum eru kalk, D-vítamín og hreyfing.