Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur og stjórnarmaður í Beinvernd, tók á móti áhugasömu ungu fólki í Háskóla ungafólksins sem haldinn var miðvikudaginn 13. júní sl.
Að sögn Ólafs tókst fræðslan mjög vel. Farið var með nemendur á Barnaspítalann á röntgendeildina en fræðslan var í samstarfi við Félag íslenskra geislafræðinga. Þar fengu nemendur innsýn í þá vinnu sem þar fer fram. Að því loknu var Ólafur með beinverndarfræðslu fyrir nemendur og lagði áherslu á tengsl næringar á beinin. Nemendurnir ungu voru mjög áhugasamir og spurðu margra góðra spurninga. Að lokum hélt Martha A. Hjálmarsdóttir, lektor og formaður Geisla- og lífeindaskorar, fyrirlestur um bakteríur af ýmsum toga. Nemendum var boðið að berja bakteríurnar augum í gegnum smásjá. Nemendahóparnir, sem voru tveir, fóru fróðari heim að lokinni skemmtilegri fræðslu.