Eitt af aðalverkefnum hjá starfsmanni Beinverndar í vetur hefur verið að heimsækja staði, þar sem fram fer félagsstarf aldraðra í Reykjavík. Velferðarsviði borgarinnar var með bréfi boðið uppá fræðslu um beinþynningu og beinvernd auk kynningar á félaginu undir yfirskriftinni „Betra er heilt en vel gróið“. Velferðarsvið kom erindi Beinverndar áleiðis til forstöðumanna félagsmiðstöðva aldraðra og þáðu 10 stöðvar fræðsluna. Móttökurnar voru með eindæmum góðar og oft spunnust upp líflegar umræður og margar spurningar vöknuðu. Meginboðskapur fræðslunnar var sá að aldrei er of seint að hugsa um heilbrigði beinanna og að við getum gert margt sjálf til þess að þau eldist vel þótt auðvitað sé betra að leggja grunninn strax í uppvextinum. Farið var yfir helstu áhættuþætti, forvarnir og hvað hægt er að gera til að draga úr byltum en það eru oftast þær sem valda beinbrotum. Beinvernd þakkar fyrir góðar móttökur og ánægjuleg samskipti á öllum félagsmiðstöðvunum.
Það voru fleiri aðilar sem höfðu áhuga á fræðslu frá Beinvernd en félagsmiðstöðvar aldraðra. Meðal þeirra staða sem fengu heimsóknir frá Beinvernd í vetur eru: Reykjalundur, Oddfellow- reglan, Kvenfélag Mosfellsbæjar, Hvítabandið og framundan eru heimsóknir í MS- félagið og Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir úr heimsóknunum.