Sjúkratryggingar Íslands (SÍ), áður Tryggingastofnun Ríkisins, hefur tilkynnt um breytta þátttöku SÍ í lyfjakostnaði vegna meðferðar á beinþynningu, sjá nánar á heimasíðu SÍ: http://www.tr.is/sjtr. Í fréttabréfi lyfjadeildar SÍ kemur fram að kostnaður sjúkratrygginga vegna lyfja til meðferðar við beinþynningu nam á árinu 2008, 167 milljónir kr. Ef notkun þessara lyfja væri með sama hætti á Íslandi og í nágrannalöndunum væri hægt að lækka lyfjakostnað um 100 milljónir kr. á ársgrundvelli – sjá nánar: http://www.tr.is/media/lyfjamal/Frettabref_lyfjadeildar_9.pdf
Beinvernd tekur undir markmið um að vanda vel lyfjaval með það að leiðarljósi að hámarka meðferðarárangur, þ.e. fækka beinbrotum af völdum beinþynningar á sem hagkvæmastan hátt. Greiðsluþátttaka sjúkratrygginga mun eingöngu miðast við Alendronat Ranbaxy, sem er ódýrasta lyfið samkvæmt lyfjaverðskrá í september 2009. Ef sjúklingar og meðferðalæknar þeirra kjósa að nota önnur samheitarlyf (Fosamax eða Fosavance) eða önnur lyf úr lyfjaflokknum bisfósfónöt (Optinate eða Bonviva), þá þarf sjúklingur að greiða mismuninn frá verði Ranbaxy lyfsins og því sem afgreitt er. Í sumum tilvikum gefa apótek afslátt af sjúklingahlutanum og þá er oft enginn munur fyrir sjúklinginn hvaða lyf er afgreitt, en SÍ greiðir aldrei meir en viðmiðunarlyfið kostar.
Í fréttabréfi SÍ er gerður samanburður á notkun þessara lyfja hér á landi og í Noregi og Danmörku hinsvegar. Niðurstöðurnar eru birtar með þremur “kökuritum”, sem sýna mikinn mun á lyfjanotkun einstakra lyfja í þessum lyfjaflokk hér á landi miðað við Norðurlöndin. Beinvernd telur mikilvægt að benda á að umrædd viðmiðunarlyf voru markaðssett hér á landi síðastliðið sumar með núgildandi verði, en sambærileg lyf fyrir nær þremur árum í þeim löndum sem SÍ kýs að bera sig við. Fyrir markaðsetningu Alendronat Ranbaxy hér á landi var kostnaður annarra bisfósfónatlyfja, þ.e. Fosamax, Fosavance, Optinate septium og Bonviva, mjög áþekkur eða á bilinu 80.000 til 88.000 krónur á árs grundvelli. Skýrir það vafalaust að miklu leyti mismunandi ávísunarvenjur í löndunum þremur.
Þá telur Beinvernd rétt að benda sjúklingum á að þeir sem hafa áður reynt Alendronat (samheitarlyf við Fosamax og Fosavance) og þurft að hætta þeirri meðferð vegna óþols, aukaverkana eða ófullnægjandi meðferðarárangurs, geta sótt um undanþágu, þ.e. lyfjaskírteini, fyrir áframhaldandi meðferð með öðru beinþéttnilyfi en Alendronati.