Slys á öldruðum – forvarnir á Byltu- og beinverndarmóttöku Landspítalans
Fyrir fáeinum dögum var kynnt könnun á slysum aldraðra árið 2003 sem byggð er á gögnum Slysaskrár Íslands og slysadeildar Landspítalans. Þar kom fram að flest slys á öldruðum urðu á eða við heimili þeirra. Fall var helsta orsök áverka og hjá þriðjungi aldraðra voru afleiðingarnar einhvers konar beinbrot. Þetta bendir til þess að slysa-varnir aldraðra þurfi að verulegu leyti að snúa að heimili og nánasta umhverfi þess. Miklu skiptir að fólki sé þetta ljóst og geti kynnt sér úrræði í þessu efni. Þegar er hafið öflugt og skipulegt starf sem snýr að vörnum gegn byltum og beinbrotum aldraðra og ber einkum að vekja athygli á Byltu- og beinverndarmóttöku öldrunarsviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss á Landakoti.
Öldrunarsviðið býður nú upp á þjónustu við aldraða sem hafa orðið fyrir byltum eða telja að þeir séu í slíkri hættu. Tekið er við tilvísunum frá heilsugæslulæknum, öldrunarlæknum og öðrum læknum en einnig frá heimahjúkrun og frá bráðamóttöku LSH.
Byltur og brot eru eitt af stóru viðfangsefnunum í heilbrigðisþjónustu við aldraða. Sýnt hefur verið fram á með rannsóknum hverjir áhættuþættirnir eru en einnig að draga má umtalsvert úr áhættu á byltum, sé gripið inn í með viðeigandi hætti.. Árangurinn mælist í minni brotatíðni, færri innlögnum á sjúkrahús og þar með bættum lífsgæðum. Í þessu ljósi hefur fagfólk á göngudeild öldrunarsviðs á Landakoti þróað sérstaka móttöku fyrir aldraða.
Þeir sem koma í Byltu og beinverndarmóttökuna eru skráðir í fyrstu komu á dagdeild og verja hálfum til einum degi í fyrstu komu. Safnað er upplýsingum frá hinum aldraða og ættingjum ef við á. Læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, iðju-þjálfar og fleiri eftir atvikum, vinna í móttökunni. Hinn aldraði er skoðaður hátt og lágt og ákveðnum rannsóknum er safnað. Allar upplýsingar eru dregnar saman og við næstu komu á móttökuna er gerð frekari rannsóknaráætlun ef við á og áætlun um meðferð. Oft leiðir skoðunin til breytinga á lyfjameðferð, athugunar á heimili og endurhæfingar. Athugun á heimili beinist einkum að slysagildrum á borð við þröskulda, laus teppi og dregla, stiga án handriða o.fl.
Starfsfólk í heilbrigðisþjónustunni er hvatt til þess að hafa þessa sérhæfðu móttöku í huga fyrir þá sem hafa orðið fyrir byltu eða eru taldir í áhættuhópi. Frekari upplýsingar má fá hjá öldrunarsviði Landspítalans. Helga Hansdóttir yfirlæknir hefur umsjón með Byltu- og beinverndarmóttökunni.
Í ágúst 2005