Þegar snjókorn falla þá fellur fólk líka. Byltur vegna hálku er ein af hættum vetrarveðurs og geta valdið alvarlegum áverkum s.s. blæðingum, brotnum beinum og jafnvel höfuðmeiðslum.
Nokkur góð ráð:
- Skipuleggja fram í tímann. Skipuleggðu ferðir miðað við veður. Ef þú þarft ekki að vera á ferðinni slepptu því. Bíddu þar til veður lagast og búið er að moka og sanda gangstíga.
- Gefðu þér nægan tíma til af komast á milli staða. Líkur á byltum aukast þegar þú hleypur og flýtir þér vegna þess að þú ert að verða of sein(n).
- Veldu leiðina vel. Leitaðu að öruggustu leiðinni að áfangastað, hvort heldur þú ert akandi, hjólandi eða gangandi. Veldu einnig öruggustu leiðina inn í bygginguna sem þú er að fara í. Stundum er þessi venjulega leið ekki sú besta. Það getur farið eftir því hvernig hálkuvörnum er við komið hverju sinni.
- Biddu um aðstoð. Fáðu einhvern til að hjálpa þér yfir götuna eða yfir hálkusvæðið.
- Leggðu þitt af mörkum . Ef inngangar í byggingar eru hálar og gangstéttir ekki öruggar þá er gott að láta vita af því og biðja um að það sé mokað, saltað og sandað.
- Veldu réttu skóna. Skóbúnaður er mikilvægur og velja skal skó sem styðja vel við fót og eru með stömum botni. Mannbroddar eru mjög gagnlegir. Vertu varkár. Gakktu varlega. Vertu meðvituð/meðvitaður um möguleikann á því að þú gætir runnið til. Forðastu freistinguna að spretta úr spori til að ná í strætó – bíddu eftir þeim næsta.
- Bílastæði. Vertu sérstaklega varkár þegar þú ferð út út bílnum og inn í hann á bílastæðinu. Haltu í hurðina eða bílinn þegar þú stígur út til að fá auka stuðning. Gættu þess að bílar geta runnið til á bílastæðinu.
- Sjónin. Léleg sjón getur gert okkur lífið leitt í hálkunni og aukið hættuna á byltum. Gott að fara reglulega og láta athuga sjónina og hvort gleraugun/linsurnar séu að gera sitt gagn.
- Mörgæsa göngulag. Þegar gengið er í hálku (á ís) er gott að taka stutt skref og draga lappirnar í hverju skrefi, halla líkamanum aðeins fram þannig að þyngdarpunkturinn sé fyrir framan ökkla, kreppa tærnar og stíga með jöfnum þunga í alla ilina.
- Hafðu lausar hendur. Vertu í vettlingum eða hönskum til að halda höndunum heitum, ekki hafa hendur í vösum. Það er betra fyrir jafnvægið að hafa lausar hendur. Fara skal varlega ef halda þarf á þungum hlut eða barni í hálku því það er svo auðvelt að missa jafnvægið.
- Moka snjónum í burt eins fljótt og hægt er. Haltu anddyrinu, stéttinni, gangveginum að húsinu og bílastæðinu snjólausu eins og kostur er með því að moka, salta og sanda. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að hættulegir hálkublettir myndist. Það getur tekið tíma að bíða eftir því að það hláni – jafnvel marga daga!
Heimild: Denver Post