Estrógen
Estrógen og skyld efni til meðferðar og forvarna við beinþynningu
Jens A. Guðmundsson læknir, Kvennadeild Landspítalans v Hringbraut
Það er almennt viðurkennt að hjá konum gegna estrógen hormón lykilhlutverki í uppbyggingu og viðhaldi beina. Hámarksbeinstyrkur næst snemma á frjósemisskeiði fyrir áhrif estrógens, vaxtarhormóns og annarra vefjauppbyggjandi þátta. Hætta á beinþynningu síðar á ævinni ræðst af samspili erfða- og umhverfisþátta. Ástand sem veldur estrógenskorti snemma á ævinni, svo sem ómeðhöndlað tíðastopp af völdum óhóflegra íþróttaiðkana tengdum ónógri fæðuinntöku, lystarstol og ýmsar aðrar truflanir á starfsemi heiladinguls, getur leitt til þess að beintap verður. Ýmsir langvinnir sjúkdómar, ákveðin lyf, reykingar, óhófleg áfengisneysla o.fl. hefur einnig neikvæð áhrif á beinstyrk, en í mörgum slíkum tilvikum er estrógenskortur meðverkandi þáttur. Minnkandi estrógenframleiðsla sem fylgir náttúrlegum tíðahvörfum er þó trúlega mikilvægasta orsökin fyrir því að beinþynning er mun algengari hjá konum en körlum.
Ef konur taka inn estrógen eftir tíðahvörf hægir á beintapi og getur það seinkað um allmörg ár að afleiðingar beinþynningar, sem eru beinbrot af litlu tilefni, koma fram. Til þess að slík hormónataka hafi áhrif þarf hún að standa í a.m.k. 5 ár eða lengur. Hormónameðferð hefur fleira í för með sér en að seinka beintapi:
-
Hormónameðferð dregur verulega úr óþægindum tengdum estrógenskorti eftir tíðahvörf og bætir lífsgæði.
-
Hormónameðferð eykur tíðni brjóstakrabbameins við langtímanotkun, en líkur eru á að dánartíðni sé af völdum þess sé lægri hjá þeim konum sem taka hormón.
-
Hormónameðferð viðheldur blæðingum og óþægindum tengdum þeim.
-
Fimm árum eftir að hormónameðferð er hætt gætir langtímaáhrifa lítið.
-
Áður var talið að hormónameðferð var ástæða fyrir lægri tíðni hjartasjúkdóma hjá þeim konum sem voru á slíkri meðferð, en nýjar hendivalsrannsóknir benda til að því sé öfugt farið ef konur eru á samfelldri samsettri meðferð með estrógeni og prógestíni.
Á síðustu áratugum hefur notkun hormóna við og eftir tíðahvörf aukist mikið. Á Íslandi fjórfaldaðist sala hormóna frá 1985 til 1995 og hlutfall 50-55 ára kvenna sem notaði hormón jókst úr 10 í 50% á sama tímabili. Þetta kom fram í rannsókn sem gerð var hjá Leitarstöð Krabbameinsfélags Íslands (Jón Hersir Elíasson o.fl. 1996). Flestar konur sem taka hormón virðast þó eingöngu gera það í 1-2 ár og þó lengd notkunar hafi aukist er það aðeins þriðjungur af þeim 50% kvenna sem taka hormón sem gera það í meira en 5 ár. Þetta þýðir að einungis 15-20% kvenna taka hormón lengur en 5 ár sem er sá lágmarkstími sem hormónanotkun þarf að standa til að hún hafi umtalsverð áhrif á beinþéttni.
Þetta þýðir í raun að þó hormónanotkun meðal íslenskra kvenna sé almenn og talsvert meiri en í nágrannalöndunum, er óvíst að það muni hafa mikil áhrif á heildartíðni beinþynningar í náinni framtíð.
Þegar kostir hormónameðferðar eru vegnir á móti göllunum virðast kostirnir vera meiri, en samt eru ýmsar ástæður fyrir því að konur kjósa að taka ekki hormón eftir tíðahvörf. Í erlendum rannsóknum þar sem konur voru spurðar af hverju þær kysu að taka ekki hormón voru eftirfarandi ástæður algengar-
-
skortseinkenni eru lítil eða standa stutt
-
áframhaldandi blæðingar af hormónameðferð
-
aukaverkanir
-
tíðahvörf eru náttúrulegt fyrirbæri
-
fyrirbyggjandi áhrif gegn hugsanlegum sjúkdómi eru ekki nægileg rök fyrir ævilangri hormónatöku
-
hræðsla við brjóstakrabbamein
-
aðrar aðferðir duga jafnvel eða betur gegn óþægindum við tíðahvörf
Það lætur að líkum að ástæður geti verið svipaðar hérlendis.
Ef kona veit að hún er í mikilli hættu á að fá beinþynningu, t.d. vegna sterkrar ættarsögu, ætti hún að íhuga að taka hormón í mörg ár. Á því eru þó þeir annmarkar, að hjá konum þar sem leg hefur ekki verið fjarlægt, þarf að haga meðferð þannig að ekki verði aukin hætta á ofvexti á slímhúðinni inni í leginu. Þá er ekki hægt að taka eingöngu estrógen, heldur þarf að bæta við prógestíni til að draga úr óæskilegri örvun á legslímhúðina. Nýlega hefur verið varað við því að slík hormónataka í mörg ár geti haft nneikvæð áhrif sem yfirgnæfi ávinninginn.
Ef hinsvegar er hægt að taka eingöngu estrógen (þegar leg hefur verið fjarlægt) er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af þessu.
Ef kona getur alls ekki tekið estrógen, eru til skyld lyf og ýmis önnur lyf en hormón til að sporna við beinþynningu. Því er um ýmislegt að velja fyrir þær konur sem eru í mikilli hættu að fá beinþynningu eða eru komnar með hana.
Endurskoðað í október 2002