Þann 20. október er alþjóðlegi beinverndardagurinn. Tilgangurinn með honum er að minna almenning á mikilvægi lifnaðarhátta sem stuðla að beinvernd. Slagorð alþjóða beinverndardagsins er að þessu sinni “invest in your bones” eða “fjárfestum í beinum”. Áætla má að á Íslandi brotni árlega a.m.k. eitt þúsund einstaklingar af völdum beinþynningar, þ.e. við lítinn eða engan áverka. Beinbrot eru mjög dýr fyrir einstaklinginn og þjóðfélagið að ekki sé talað um þjáningarnar sem þau valda.
Bein eru lifandi vefur sem er í stöðugri endurnýjun lífið á enda. Staðreyndin er hins vegar sú að á fyrsta þriðjungi ævinnar er uppbygging meiri en niðurbrot en eftir það breytast hlutföllin og sé ekkert að gert verður niðurbrotið mun meira en uppbyggingin á síðari hluta ævinnar. Útkoman verður þá hinn þögli sjúkdómur beinþynning. Því fyrr sem einstaklingur byrjar að fjárfesta í beinum sínum því betra. Fjárfesting í beinum felst í hollu mataræði sem er ríkt af kalki og D-vítamíni, reglulegri hreyfingu, því að forðast reykingar og neyta áfengis í hófi.
Hjúkrunarfræðingar á bæklunardeild vinna mikið með fólk sem hefur beinþynningu. Eðli sjúkdómsins vegna eru eldri konur þar í talsverðum meirihluta. Þessar konur eru oft lágvaxnar, smábeinóttar og orðnar hoknar í baki. Forsagan er yfirleitt sú að þær urðu fyrir því að detta og þrátt fyrir að fallið væri alls ekki alvarlegt þá brotnaði það bein sem þyngsta höggðið fékk, oftast mjaðmarbein. Sumar þessara kvenna hafa jafnvel oft brotnað og eru orðnar svo hræddar um að detta og brotna að þær hreyfa sig varla út úr húsi. Þá eru þær jafnframt komnar inn í vítahring vegna þess að minni hreyfing leiðir af sér meiri beinþynningu. Um leið og einstaklingur byggir upp vöðva byggir hann upp bein.
Mjaðmarbrot krefst skurðaðgerðar þar sem settur er nagli í beinið til að það grói rétt saman og í sumum tilfellum þarf að setja gervilið í mjöðmina. Strax daginn eftir uppskurðinn er einstaklingurinn drifinn á fætur og hefst þar með endurhæfingin. Mjaðmarbrot leiðir af sér mikla skerðingu á getu einstaklingsins til sjálfshjálpar. Til þess að einstaklingurinn komist heim þurfa margir aðilar að koma að máli s.s. félagsráðgjafar, hjúkrunarfræðingar, iðjuþjálfar, læknar, sjúkraliðar og sjúkraþjálfarar. Stundum þarf einstaklingurinn að dvelja á stofnun í mjög langan tíma áður en hann kemst til síns heima. Aldraðir einstaklingar sem hafa búið heima þrátt fyrir mjög takmarkaða getu til þess geta jafnvel þurft að breyta um búsetu eftir áfall sem þetta.
Fjárfesting í beinum er góð fjárfesting. Ég hvet alla til að huga að beinabankanum sínum og hvað þeir geta gert til að eiga þar sem mest innlegg ævina á enda. Því fyrr sem byrjað er að fjárfesta í beinum því betra.
Eyrún Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur á bæklunardeild Landspítala Háskólasjúkrahúsi Fossvogi og í stjórn Beinverndar.