Íþróttagreinar, sem fela það í sér að við þurfum að halda uppi eigin líkamsþyngd, eins og t.d. fótbolti, eru e.t.v. bestar til þess að stuðla að uppbyggingu sterkra beina. Fyrir tæpum tveimur árum fengu landsliðskappar íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu beinþéttnimælingu hjá Beinvernd, og niðurstöður þeirra mælinga sýndu að þeir voru að jafnaði með beinþéttni langt yfir meðaltal. Beinþéttni (BMD) er stöðluð mæling á þéttni beina og styrk.
Það er staðreynd, að börn og unglingar þurfa að hreyfa sig og fótboltinn og svipaðar íþróttir eru best til þess fallnar að styrkja beinin segir James W. Bellew frá Louisiana State University in Shreveport. Hann vitnar í rannsókn sína þar sem borin var saman beinþéttni (BMD) stúlkna í ólíkum íþróttagreinum: 29 sundkvenna, 16 fótboltakvenna og 19 stúlkna sem stunduðu lyftingar.
Fótboltastúlkurnar voru með hæstu beinþéttnina, lyftingastúlkurnar fylgdu fast á eftir en sundkonurnar vor með þá lægstu. Fótboltinn er ekki einungis þungaberandi íþrótt heldur felur einnig í sér hlaup og stökk, sem valda endurteknum höggum og álagi á beinin og örvar á þann hátt beinmyndun.
Meðalbeinþéttnigildi fótboltastúlknanna var hærra en meðalgildi hjá fullvöxnum konum, jafnvel þótt stúlkurnar hefðu ekki enn tekið út fullan líkamsvöxt og þroska.Gildin úr beinþéttnimælingum hjá stúlkunum, sem stunduðu lyftingar, voru svipuð og hjá fullorðnu konunum á meðan þau voru lægri hjá sundkonunum.
Sundkonurnar geta bætt við sína þjálfun æfingum til að styrkja beinin s.s. lyftingum og hlaupum og það er gert víða m.a. hér á landi.
Niðurstöður þessarar rannsóknar birtist í tímaritinu Pediatric Physical Therapy.