Ágæti lesandi
Fréttabréf Beinverndar eru nú gefin út á rafrænu formi hér á heimasíðu félagsins. Þannig verður kostnaðurinn við útgáfuna mun minni en þegar um prentað efni er að ræða, fleiri hafa aðgang að fréttabréfinu og auk þess er fyrirkomulagið ákaflega umhverfisvænt. Ávinningurinn af lækkuðum tilkostnaði er jafnframt sá að hægt er að gefa fréttabréfin út oftar en áður. Þannig verða greinar og fréttir með ferskara móti en áður var mögulegt.
Í þessu fyrsta fréttabréfi Beinverndar á árinu verður fjallað um það helsta sem átt hefur sér stað í starfsemi félagsins á undanförunum vikum. Einnig verður fjallað um komandi verkefni, t.d. eitt sem er á landsvísu og afar spennandi. Einnig verða fastir liðir á sínum stað s.s. nokkrar kalkríkar uppskriftir.
Þegar vorar kætast félagar í Beinvernd því þá hækkar sól á lofti og magn þess D-vítamíns sem myndast í húðinni fyrir tilstuðlan sólarljóssins eykst. D-vítamínið er nauðsynlegt fyrir beinheilsuna. Það er samt afar ólíklegt, þrátt fyrir hækkandi sól, að hver og einn nái ráðlögðum dagskammti og því nauðsynlegt að fá einnig D-vítamín úr fæðunni. Í því sambandi má nefna sem dæmi feitan fisk og lýsi auk D-vítamínbættra matvæla. Þegar vorar verðum við líka viljugri að fara út að hreyfa okkur en hreyfing er stór áhrifavaldur á styrk beina. Þungaberandi hreyfing eins og hlaup og hopp er þar mikilvægust. Að lokum verður að nefna kalkið en neysla á því er þriðja lykilatriðið í uppbyggingu sterkra beina. Kalk fæst t.d. úr mjólkurafurðum, sardínum og dökk grænu grænmeti.
Megir þú eiga góðar og beinstyrkjandi stundir á þessu ágæta vori.
Eyrún Ólafsdóttir