20. október sl. var Alþjóðlegi beinverndardagurinn haldinn á Íslandi og víða um heim. Markmiðið með deginum var að vekja athygli á beinþynningu og beinbrotum af hennar völdum og mikilvægi þess að huga að heilbrigði beinanna. Beinþynning og brot eru alvarlegt heilsufarsvandamál sem rýrir lífsgæði og er kostnaðarsamt fyrir samfélagið. Um 80% þeirra sem þegar hafa brotnað af völdum beinþynningar eru í hættu á að brotna aftur skv. skýrslu Alþjóða beinverndarsamtakanna IOF (International Osteoporosis Foundation) sem gefin var út í tilefni dagsins. Það var því vel við hæfi að öll 237 beinverndarfélögin sem eru aðilar að samtökunum í 99 löndum sameinuðust á þessum degi í átakinu PROTECT YOUR FUTURE, sem hlaut yfirskriftina GÆTTU BEINA ÞINNA hér á landi.
Í tilefni dagsins var Beinvernd með opið hús í samvinnu með Kvenfélagasambandi Íslands að Hallveigarstöðum, Túngötu 14 í Reykjavík. Þar var boðið upp á fræðsluerindi, sem endurtekið var þrisvar sinnum yfir daginn. Gestir gátu látið mæla beinþéttni sína í svokölluðu ómskoðunartæki sem gefur vísbendingu um ástand beinanna og að auki var boðið var upp á kalkríkar veitingar. Vel á annað hundrað manns mætti til að hlýða á erindi Beinverndar og voru umræður fjörlegar. Mælingarnar voru vinsælar og ekki síður góðu veitingarnar. Beinvernd þakkar samstarfaðilum sínum, Kvenfélagasambandi Íslands og MS, fyrir stuðninginn en án þeirra hefði þessi viðburður aldrei orðið að veruleika.
Þá stóð Beinvernd einnig fyrir uppákomu fyrri hluta dagsins á Landspítalanum á E5, bæklunardeildinni. Þar var og boðið upp á beinþéttnimælingar (ómskoðun) fyrir starfsmenn spítalans, gesti og gangandi auk kalkríkra veitinga. Markmiðið var hið sama; að vekja athygli á beinþynningu og forvörnum gegn henni. Margt var um manninn á E5 þennan daginn og almenn ánægja með þetta framtak.
Beinvernd var einnig með heilsíðu auglýsingu í Fréttatímanum og Morgunblaðinu til að vekja athygli á deginum auk þess sem formaður félagsins, Anna Björg Jónsdóttir, öldrunarlæknir, fór í viðtöl á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í þáttinn Líkaminn og sömuleiðis í Bítið á Bylgjunni. Þá fór Halldóra Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Beinverndar, í viðtal á Rás1 í Mannlega þáttinn og Tinna Björk Eysteinsdóttir, næringarfræðingur, skrifaði grein í Morgunblaðið um mikilvægi daglegrar neyslu á kalki og d-vítamíni. Alþjóðlegi beinverndardagurinn 2016 tókst því afar vel og málefnið á dagskrá dagsins hlaut mikla kynningu.
Svipmyndir frá deginum.