Umhverfisáætlun Snælandsskóla hefur verið í þróun frá árinu 2002 en eitt af megin þema áætlunarinnar er hollusta og hreyfing. Frá þeim tíma hefur verið unnið með ýmsa þætti innan þessa þema sem og annarra og hafa náð til allra nemenda. Þar má m.a. nefna útileikfimi allra fyrstu mánuði skólaársins, svokallaða haustdaga þar sem áhersla er á útikennslu, hreyfingu og hollustu. Auk þess var skólinn í heilsuverkefni sem menntamálar- og heilbrigðismálaráðuneyti komu af stað með nokkrum leik-, grunn- og framhaldsskólum og var Snælandsskóli þar þátttakandi. Foreldrafélagið hefur tæpa þrjá áratugi staðið fyrir leikfimi fyrir foreldra í viku hverri.
Verkefnið nær til alls skólasamfélagins, þ.e. nemenda, starfsmanna og foreldra. Nemendur á yngsta stigi tvo tíma á viku allan veturinn, blöndun árganga. Nemendur miðstigs frá september og til loka, mismunandi marga tíma á viku en tengja mikið við heimilin. Unglingastig fær fyrirlestra um ýmsa þætti sem tengjast verkefninu og þar tengjast foreldrar því það eru þeir sem flytja umrædda fyrirlestra.
Leitað var í smiðju foreldra með fyrirlestra um hugðarefni sín og/eða starfstenga þætti. Valdi 9.bekkur fyrirlestur um Beinvernd. Það var Rannveig Ásgeirsdóttir, áhugamaður um beinvernd, sem hélt fyrirlestur sem nefndist Hrein og Bein. Í honum var m.a. komið inn á lífsstílstengd vandamál og hvernig mætti með auðveldum hætti draga úr hættu á beinbrotum síðar á ævinni með því að velja rétt fyrir líkamann, velja vel það sem í hann fer og stunda reglubundna hreyfingu. Unglingarnir sýndu efninu mikinn áhuga, sýndu þekkingu á efninu, spurðu spurninga og við samantekt að fyrirlestri loknum var augljóst að þekking þeirra hafði aukist með fræðslunni. Þau fengu einnig fræðsluefni frá Beinvernd til að láta liggja frammi á heimilum sínum.
Starfsmenn með því að hafa mánaðarlega “fundi” þar sem fer fram hreyfing í ýmsu formi og þess sem þeim verður boðið upp á lífsstílsráðgjöf og fræðslu. Foreldrar tengdu einnig vorhátíð skólans þessu þema og þar var í fyrsta sinn hleypt af stokkunum Snælandsskólahlaupinu og ákveðið að um árlegan viðburð yrði að ræða. Matsala nemenda breytir um áherslur með því að bjóða upp á ávexti og grænmeti í auknum mæli.
Við teljum mikilvægt í nútímasamfélagi að leggja áherslu á þættina hollusta og hreyfing ekki síst í ljósi þess hve börn hreyfa sig minna í dag en áður. Þá hefur mataræði Íslendinga, sem og annarra Vesturlandabúa, breyst gríðarlega síðustu áratugi og virðist sem neysla ungmenna sé ekki síst bundin skyndibitafæði. Þetta verkefni svarar því kröfum samtímans að skólinn beiti sér fyrir bættum matarvenjum, meiri hollustu og hreyfingu. Við afmörkum þó ekki verkefnið eingöngu við hreyfingu og mataræði þarna er um miklu víðtækara verkefni að ræða enda verið að tala um almennt heilbrigði, bæði til líkama og sálar. Verkefnið tengist Grænfánaverkefni skólans m.a. með því að sum markmið þess verkefnis varðar hollustu og/eða hreyfingu. Við minnum á að skólastarf er meira en fræðslustarf; að kenna smekk, móta viðhorf og skapa lífssýn.
Markmiðið verkefnisins er því að bæta heilsu og líðan nemenda auk starfsmanna og tengja saman heimili og skóla á þessum vettvangi. Í aðalnámskrá grunnskóla segir: Grunnskólinn skal leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins. Þar segir líka: í starfi skólans skal leggja áherslu á að efla sjálfsvitund og félagsvitund nemenda,að stuðla að líkamlegri og andlegri velferð, heilbrigðum lífsháttum og ábyrgri umgengni við líf og umhverfi.
Við ætlum að koma til móts við þessar áherslur með þeim þáttum sem taldir eru upp í lýsingu á framkvæmd:
að efla hreyfingu nemenda og starfsmanna
að fræða nemendur og starfsmenn um mikilvægi hreyfingar
að efla andlegt heilbrigði með því að njóta útivistar, hlusta á fyrirlestra, efla fjölskyldutengsl o.fl.
fræða nemendur og starfsmenn um gildi hollrar fæðu
breyta mataræði nemenda
fræða nemendur og starfsmenn um vinnuvernd og vinnuvistfræði
virkja foreldra til samstarfs
efla forvarnir og upplýsa foreldra um þær
Á yngsta stigi fóru kennarar og nemendur í útivist alla miðvikudaga kl. 9:50 – 11:10 eða tvær kennslustundir og þær nýttar í september og október fyrst og fremst til leikja og stöðvavinnu. Tilgangurinn fyrst og fremst að kenna nemendum alls kyns heilbrigða leiki sem þeir geta síðan nýtt áfram í frímínútum í skólanum og annars staðar.
Þegar veður versnaði var farið í innileiki í 8 stofum og hver hópur var eina kennslustund í hverri stofu.
Eftir jól var ákveðið að taka fyrir ýmsa þætti hreyfingar og hollustu. Unnið var með matarræði- og næringu; hreyfingu og sönglist; umhirðu tanna; svefn og drauma.
Tveir kennarar vinna saman, en taka mismunandi verkefni fyrir, undir sama þema.
Fræðslu og skemmtun er tvinnað saman og m.a. fengið efni frá Lýðheilsustöð.
Tannfræðsla: Horft á myndband um tennur (Burstaprinsessan) í öðrum hópnum. Búinn til ,,goggur” um tannhirðu.
Í hinum hópnum horfa börnin á myndband um Karíus og Baktus eftir fræðslu um
tannhirðu. Tannfræðingur kom í heimsókn í 1. og 3. bekk.
Næring og matarræði: Börnin fræðast um og skoða fæðuhringinn og klippa út úr matarauglýsingum blaðanna til að búa til sinn eigin fæðuhring. Þar er líka skoðað af hverju við fáum ekki myndir í alla flokka úr þessum auglýsingum og af hverju sumt á hvergi heima í fæðuhringnum. Í hinum hópnum vinna börnin með hollt og óhollt.
Svefn og draumar: Nemendur fá fróðleiksmola um svefn og svefntíma og teikna draumana sína í öðrum hópnum. Í hinum hópnum er búið til draumanet í hinum hópnum, sem fangar martraðirnar en hleypir góðum draumum í gegn, að hætti indíána.
Hreyfing og sönglist: Farið í ýmsa gamla söngleiki
Allir hafa sinn plastvasa í svæðavinnunni með á sitt svæði og að lokum varð til lítil bók um hollar venjur og aðra fróðleiksmola. Inn á milli verkefna hafa verið skipulagðar söngstundir með tónmenntakennaranum þar sem allir á stiginu koma á sal og syngja saman. Teljum við að mikil andleg hollusta sé fólgin í þessum söngstundum.
Á miðstigi var í skólabyrjun farin sú leið að hver og einn bekkur eða árgangur gerði ýmislegt; einn bekkur fór ævinlega í útivist í hverju viku. Nemendur í 7. bekkjum voru með valsvæði í hverri viku og einn hópur fór ævinlega út að ganga. Þá gerðu sömu nemendur könnun á því hversu mikla hreyfingu nemendur eru að fá í viku hverri utan skólans til dæmis hjá íþróttafélögum. Allir nemendur voru hvattir til að ganga í skólann og jafnfram að huga að hreyfingu eftir skóla og þá með öðrum í fjölskyldunni.
Í nóvember var hafist handa við sameiginlegt verkefni á valsvæðum í öllum árgöngum, þar sem unnið var með fjölgreindarkenningu sem kennd er við sálfræðinginn Howard Gardner. Hann heldur því fram að hver manneskja hafi ekki aðeins eina greind heldur sjö eða átta og jafnvel níu, í mismiklum mæli þó (Tomas, 2001).
Í janúar, mars og maí var kenndur dans mánaðarins í hverjum árgangi og var kennslan í höndum foreldra.
Í febrúar var haldið fótboltamót stigsins, hver bekkur sendi tvö lið. Allir nemendur taka þátt í fótboltamótinu með einum eða öðrum hætti, hanna búninga eða mynda klapplið.
Í febrúar kom tannfræðingur með fræðslu í 5. og 7. bekki.
Í apríl með hækkandi sól voru ratleikir í gangi allan mánuðinn og var Fossvogsdalurinn vettvangurinn. Í janúar og maí voru kennarar með slökunarspólur í ákveðnum tímum og þá í tengslum við prófin.
Að lokum má geta þess, að allir nemendur fóru í eina til tvær vettvangsferðir yfir skólaárið, þar sem þeir kynntust gróðri, dýrum, störfum fullorðinna og nutu þess að vera saman við leik og störf.
Á unglingastigi fólst þátttakan fyrst og fremst í því að hlýða á fyrirlestra um ýmis efni tengdu þemanu þar má nefna fyrirlestur um hreyfingu og heilsu kvenna sem fyrst og fremst var kynnt 9. og 10. bekkingum, stúlkum.
Einn fyrirlesturinn fjallaði um vinnuvistfræði og vinnuvernd og sneri fyrst og fremst að 10. bekk í tengslum við Evrópska vinnuverndarviku og vinnuvistfræðifélag Íslands. 8. bekkingar fengu fyrirlestur um tannlækningar með áherslu á forvarnir. Einn fyrirlestur var um beinvernd og svefnvenjur, sem 9.bekkur fær, einn fyrirlestur var um útivist m.a. fjallgöngur og hlaup. Næsta vetur mun Hjálparsveit skáta verða með valgrein í skólanum um almenna útivist með áherslu á búnað. Hreinlæti er þáttur sem snertir alla aldurshópa og mun var sérstaklega tekinn fyrir hjá umsjónarkennurum og hjúkrunarfræðingi. Fyrirlestur var fyrir 8.bekkinga um hollustu í mat og matarvenjur. Námsráðgjafi var með sjálfstyrkingarnámskeið fyrir alla unglinga og forvarnir voru teknar fyrir á ýmsan hátt eins og venjulega, m.a. kom tannfræðingur í 10. bekk og verkefnið Hættu áður en þú byrjar í 9. bekk. Í nestistíma kl. 9:30 er unglingum boðið upp á að kaupa ávexti og grænmeti í matsölu nemenda.
Því má ekki gleyma að auk þess eru áfram verkefni í gangi á öllum stigum sem tengjast heilbrigði. Þar má nefna útileikfimi, haust- og vordaga með skipulögðum ferðum og útikennslu og forvarnarverkefnum svo sem Reyklausir bekkir og önnur verkefni sem tengjast lífsleikni.
Starfsmenn, sem í miklum meirihluta eru konur munu fengu fyrirlestur um hreyfingu og heilsu kvenna. Öllu starfsfólki var boðin lífsstílsráðgjöf. Í febrúar fengu starfsmenn fyrirlestur um kynferðislegt ofbeldi gagnvart börnum og unglingum.
Í hverjum mánuði er tekinn einn fundartími fyrir hollustu og hreyfingu sem dæmi: gönguferð, útileikir, keila, jóga, dans. Foreldrar fengu fyrirlestra um staðalímyndir, ábyrga netnotkun og hvað ber að varast varðandi nýja miðla eins og MSN og SMS.
Rannveig Ásgeirsdóttir, formaður foreldrafélags Snælandsskóla