
Sigurður E Sigurðsson, staðgengill framkvæmdstjóra lækninga á FSA og Dr. Björn Guðbjörnsson, gigtlæknir og formaður Beinverndar.
Dr. Björn Guðbjörnsson, formaður Beinverndar, kynnti málefnið og mikilvægi þess að unnt sé að veita þessa þjónustu á Norðurlandi. Hann greindi frá orsökum og afleiðingu beinþynningar og hversu stórt vandamál hún er.
Árið 1998 var keyptur fullkominn beinþéttnimælir á lyflækninga- og myndgreiningardeild Sjúkrahússins á Akureyri fyrir tilstuðlan nokkurra öflugra styrktaraðila og félagasamtaka á Norðurlandi. Mælirinn hefur verið í notkun á FSA s.l. 8 ár og hafa um 500-700 einstaklingar farið í beinþéttnimælingu á þessum árum. Um þessar mundir er svo komið að beinþéttnimælingar liggja niðri, þar sem mælirinn hefur verið dæmdur ónýtur. Nauðsynlegt er að útvega nýjan mæli til notkunar á sjúkrahúsinu en beinþéttnimælir kostar á bilinu 10-14 milljónir. Því hefur verið ákveðið að hefja söfnun meðal fyrri og nýrri styrktaraðila um kaup á nýjum mæli svo unnt verði að tryggja þessa þjónustu til frambúðar á FSA en það ætti að vera öllum ljós sú nauðsyn að fá nýjan beinþéttnimæli á Sjúkrahúsið á Akureyri.
Eftir þennan fund ríkir bjartsýni um að með góðra manna hjálp verði hægt að safna fyrir þessum mæli á næstunni. Reyndar eru fyrstu framlög farin að berast og verða fréttir af söfnuninni birt reglulega á síðu FSA .