Beinvernd, ásamt 200 beinverndarfélögum frá 94 þjóðlöndum sem eru aðilar að alþjóða beinverndarsamtökunum International Osteoporosis Foundation (IOF) héldu upp á hinn alþjóðlega beinverndardag þann 20. október.
Beinvernd leitaði að þessu sinni eftir samstarfi við Kvenfélagasamband Íslands og kvenfélögin í landinu um að skipuleggja göngu í tilefni dagsins. Ákveðið var að gangan færi fram laugardaginn 22. október en ekki á sjálfan beinverndardaginn sem bar upp á fimmtudag því þá væri von um betri þátttöku.
20 kvenfélög víða um land tóku höndum saman með Beinvernd og GENGU FYRIR BEININ til að sýna í verki samstöðu með þeim fjölda fólks sem er með beinþynningu. Gangan fór fram sem fyrr segir laugardaginn 22. október sl. kl. 2:06 e.h. og vísar tímasetningin til þess að í mannslíkamanum eru 206 bein. Fjöldi þátttakenda á hverjum stað var misjafn og einnig veglengdin sem gengin var en allir luku göngunni glaðir í bragði og tóku höndum saman og mynduðu táknræna einingarkeðju, arm í arm. Myndir úr göngunni munu koma fljótlega á síðuna.