Hráefni
1 stk stórt lambalæri
2 stk laukar, skornir í fernt
nokkrar rósmaríngreinar
2 stk hvítlaukar, skornir í tvennt og 12 rif
ólífuolía
sjávarsalt og svartur pipar
Kryddjurtasósa
1 stórt handfylli basilíka
1 stórt handfylli ítölsk blaðsteinselja
1 stórt handfylli mynta
1 tsk Dijon sinnep
1 msk sherry vínedik eða balsamik edik
1 msk kapers, skolað fyrst undir vatni
3 stk ansjósuflök
1 stk sítróna, fínrifinn börkur og safi
2 dl ólífuolía
Frísk jógúrtsósa
2 msk thainimauk
⅔ dl sjóðandi vatn
½ stk hvítlauksrif
1¼ dl hrein jógúrt
3 msk sítrónusafi
⅔ dl ólífuolía
sjávarsalt og svartur pipar
Meðlæti
klettasalat
1 stk fetakubbur
60 g furuhnetur, ristaðar
sítrónubátar
Aðferð:
Stillið ofninn á 150°C. Fituhreinsið lærið og skerið í það tólf skurði hist og her. Ofan í skurðina setjið þið hvítlauksrif og rósmarín, en gott er að taka sex greinar og skera þær í tvennt og vefja þeim utan um rifin. Makið ólífuolíu á lambalærið, saltið og piprið vel. Setjið hvítlauk og lauk í ofnskúffu en gætið þess að taka ekki utan af hvítlauknum, skerið hann bara í tvennt. Ofan á laukana fara svo nálar af tveimur rósmaríngreinum. Loks setjið þið lambalærið ofan á þetta fína laukbeð. Breiðið síðan álpappír yfir og festið lauslega. Þá hefst hinn langi eldunartími með tilheyrandi ilmi daglangt. Athugið lærið af og til og ef það byrjar að þorna er gott að skvetta örlitlu vatni yfir, en það er ekki verra ef til er afgangs hvítvín í staðinn.
Gott er að gera báðar sósurnar um leið og lærið fer inn í ofn því þá þarf bara að setja réttinn saman um kvöldið. Jógúrtsósan er geymd í ísskáp en kryddsósan við stofuhita. Sósurnar eru báðar fljótgerðar.
Kryddjurtasósa, aðferð:
Setjið öll hráefnin í blandara og maukið. Smakkið til með salti og pipar. Þá er sósan tilbúin.
Jógúrtsósa, aðferð:
Setjið thainimauk og vatn í blandara og maukið saman, þar til slétt og fellt. Síðan er hinum hráefnunum bætt saman við og hrært saman. Smakkið til með salti og pipar.
Þegar lærið er tilbúið er það dásamlega mjúkt og meyrt kjötið hrynur hreinlega af beininu. Kjötbitunum er raðað á bakka og yfir það er grænu kryddjurtasósunni hellt jafnt yfir og fetaosturinn mulinn þar yfir. Það þarf ekki að nota allan fetakubbinn og tilvalið er að hafa restina af honum til hliðar fyrir þá matargesti sem vilja meira. Loks er furuhnetunum, smá sítónuberki og saxaðri myntu sáldrað yrir. Þá er rétturinn tilbúinn og hann borinn fram með jógúrtsósunni og sítrónubátum.
Höfundur: Erna Sverrisdóttir