Heilsusýningin Fit & Run fór fram í Laugardalshöllinni dagana 18. og 19. ágúst í tengslum við Reykjavíkurmaraþon. Maraþonið er einn af burðarásunum á Menningarnótt Reykjavíkur og verður vinsælla með hverju ári. Beinvernd var á sýningunni, kynnti starfsemi félagsins og bauð uppá beinþéttnimælingar með svokallaðri ómskoðun. Í ómskoðun er notast við tæki sem byggir á því að hljóðbylgja er send í gegnum hælbein og þéttni beinsins metin á þann hátt. Þessi mæling gefur góða vísbendingu um ástand beinanna en er þó ekki hin eiginlega greining á beinþynningu. Til þess þarf stærri og flóknari mælitæki, sem einungis er að finna á Landspítalanum og á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Fjöldi fólks lét mæla sig og var almenn ánægja með þessa þjónustu. Það er mikilvægt fyrir félag eins og Beinvernd sem sinnir forvörnum og fræðslu að vera sýnilegt á viðburði sem þessum og vekja athygli á beinþynningu og forvörnum gegn henni.