Dagana 27. apríl til 2. maí var heilsuvika í Mosfellsbæ og hafa Mosfellingar af því tilefni verið hvattir til að nota tækifæri og skerpa á heilbrigðum lífsháttum sínum.
Heilsuvikan var tilvalið tækifæri til þess að setja af stað eitt allsherjar fjölskylduátak þar sem allir taka höndum saman í eina viku og neyta hollrar fæðu og stunda útivist og hreyfingu. Heilsuvikunni lauk með heilsudegi sl. laugardag 2. maí með heilsutengdri dagskrá í Íþróttamiðstöðinni að Varmá. Þar var Solla Eiríks með himneska hollustu og Guðrún Adolfsdóttir veitti ráðleggingar um mataræði auk þess sem boðið var upp á blóðþrýstingsmælingar og beinþéttnimælingar. Dagskránni lauk með Fjölskyldu- og skemmtihlaupi.