Beinvernd heimsótti Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar á dögunum og var þar með fræðslu um beinþynningu og helstu forvarnir fyrir hjólastólanotendur. Þetta var heilmikil áskorun því í mörgum tilvikum er um aðrar áherslur og ráðleggingar að ræða um forvarnir en hjá þeim sem stigið geta í fætur. Móttökurnar voru alveg frábærar og eftir fyrirlesturinn urðu fjörlegar umræður og mörgum spurningum er enn ósvarað. Það er mikilvægt fyrir Beinvernd að vera í tengslum við önnur félagasamtök og hópa og sinna þar hlutverki sínu um fræðslu og forvarnir.