Beinvernd hefur nú á haustmánuðum heimsótt nokkrar félagsmiðstöðvar í Kópavogi, Mosfellsbæ og í Reykjavík, þar sem fram fer félagsstarf aldraðra. Í þessum heimsóknum hefur Halldóra Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Beinverndar, haldið fræðsluerindi um beinþynningu og beinvernd undir yfirskriftinni „Betra er heilt en vel gróið“. Í fyrirlestrinum er farið yfir orsakir beinþynningar, áhættuþætti og forvarnir. Þessu verkefni hefur verið afar vel tekið og áhugaverðar og skemmtilegar umræður skapast þar sem fólk deilir reynslu sinni og drekkur í sig fróðleik um beinin og hvað hægt sé að gera til að viðhalda heilbrigði þeirra. Beinvernd stefnir að því að heimsækja fleiri félagsmiðstöðvar aldraðra í vetur.
Svipmyndir úr heimsóknunum.