Helstu lyf
Lyf gegn beinþynningu önnur en hormónalyf
Prófessor Gunnar Sigurðsson
Evista (raloxifen):
Evista tilheyrir nýjum flokki lyfja sem verka örvandi á östrogen viðtakann í sumum östrogen næmum vefjum en hemjandi í öðrum vefjum. Þannig hefur Evista örvandi áhrif á östrogen viðtakann í beinum á svipaðan hátt og östrogen (kvenhormónið) sjálft en hefur ekki önnur áhrif hormóna nema að það lækkar kólesteról í blóði með því að verka á östrogen viðtakann í lifur. Evista verkar ekki á brjóst eða leg og lyfið veldur því alls ekki aukinni áhættu á brjóstakrabbameini. Lyfið hefur heldur ekki áhrif á legslímhúð og stuðlar því ekki að blæðingum meðal kvenna. Lyfið hefur hins vegar engin áhrif á einkenni samfara breytingaskeiði kvenna, getur jafnvel aukið svitakófin ef lyfið er tekið á fyrstu fimm árunum eftir tíðahvörf.
Vörn gegn beinþynningu:
Stórar hóprannsóknir á konum eftir tíðahvörf hafa sýnt að Evista dregur verulega úr áhættu á samfalli hryggjarliðbola. Þetta gerist væntanlega vegna þess að lyfið minnkar virkni þeirra frumna (osteoclastar = beinúrátur) í beinum sem stjórna niðurbroti beina. Lyfið eykur beinþéttni í hryggjarliðbolum um a.m.k. 3% eftir tveggja ára notkun.
Helstu ábendingar:
Til að fyrirbyggja samfall hryggjarliða hjá konum eftir (meira en fimm ár) tíðahvörf sem eru í sérstakri áhættu fyrir beinþynningu eða hafa hlotið beinbrot. Lyfið hefur þann kost að verka alls ekki á brjóst og því er engin áhætta á brjóstakrabbameini. Lyfið kemur því sterklega til greina þegar sérstök áhætta er á brjóstakrabbameini. Lyfið veldur ekki blæðingum en slær hins vegar ekki á breytingaskeiðseinkennin og kemur því vel til greina sem áframhaldandi vörn gegn beinþynningu meðal kvenna sem verið hafa tímabundið á hormónameðferð vegna breytingaskeiðsins. Einnig er það notað til varnar beinþynningu hjá konum sem þurfa á langtíma Prednisolon meðferð að halda.
Lyfið er tekið samfellt, 1 tafla á dag. Til að lyfið hafi veruleg áhrif til varnar beinþynningu þarf væntanlega að taka það í allmörg ár, a.m.k. 5-10 ár.
Aukaverkanir:
Yfirleitt þolist lyfið vel, helstu aukaverkanir eru hitaköst, sinadrættir í fótum og bjúgur á útlimum. Sjaldgæfari aukaverkun en alvarlegri eru blóðtappar í bláæðum sem geta valdið blóðtappa í lungum. Fyrri saga um slíkt er því frábending fyrir því að nota lyfið.
Bisfosfonöt-lyf:
Flokkur lyfja með sérstaka sækni í bein og verkar nánast ekki annars staðar. Lyfin bindast við beinkristallana og hemja virkni þeirra beinfrumna (osteoclastar) sem stöðugt eru að brjóta niður bein. Lyfin eru tekin upp af þessum frumum og hafa áhrif á efnaskipti þeirra. Verkun þessara lyfja innan frumunnar er nokkuð mismunandi og jafnframt er talsverður munur milli þeirra hvað varðar styrk og hliðarverkanir. Skráð lyf í þessum flokki á Íslandi gegn beinþynningu eru Fosamax og Didronat. Ný lyf í þessum flokki eru væntanleg á næstu árum.
Fosamax (alendronate):
Rannsóknir í mannfólki hafa sýnt að Fosamax hindrar niðurbrot beina sem verður með aldri með því að hemja virkni beinúrátanna. Jafnframt virðist það gera meira þar sem beinmyndunarfrumurnar halda áfram sínu starfi og útkoman verður því sú að beinmagnið eykst um nokkur prósent, 5-10% ef lyfið er tekið í nokkur ár. Stórar framskyggnar hóprannsóknir hafa einnig sýnt að lyfið minnkar verulega áhættuna á beinbrotum, ekki aðeins hryggsúlubrotum heldur einnig öðrum brotum, svo sem mjaðmarbrotum. Árangurinn er mestur í þeim hópi sem hefur mjög lága beinþéttni eða hefur sögu um beinbrot við lítinn áverka. Einnig nýtist lyfið vel til varnar gegn beinþynningu meðal sjúklinga sem taka Prednisolon.
Til að hafa veruleg áhrif til að hindra beinbrot þarf að taka lyfið stöðugt í allmörg ár, hversu mörg ár fer eftir svörun viðkomandi einstaklings og því hversu alvarleg beinþynningin var.
Lyfið er eingöngu skráð fyrir konur eftir tíðahvörf enda hafa flestar rannsóknir verið framkvæmdar á konum. Flest bendir þó til að lyfið verki jafnvel meðal karla. Einnig getur þurft að grípa til þessa lyfs meðal kvenna fyrir tíðahvörf ef um mikla beinþynningu er að ræða. Takmarkaðar rannsóknir benda til þess að bisfosfonöt hafi viðbótaráhrif á beinþéttni hjá konum sem þegar eru á hormónameðferð en ekki liggja fyrir niðurstöður varðandi áhrif á beinbrot.
Lyfið er tekið sem ein tafla, 5 eða 10 mg daglega.
Aukaverkanir:
Lyfið þarf að taka á fastandi maga og ekki borða í a.m.k. hálfa klst. á eftir svo að lyfið frásogist frá maganum. Lyfið getur verið ertandi í vélinda og maga, sérstaklega hjá þeim sem hafa sögu um maga- og vélindabólgur. Því eru ekki allir sem þola þetta lyf en sé lyfið tekið á réttan hátt má oft koma í veg fyrir þessar aukaverkanir. Meltingaróþægindi eru því helstu aukaverkanirnar en stöku sinnum koma fram verkir í stoðkerfi.
Ditronat (etidronate):
Ditronate er annað lyf sem tilheyrir bisfosfonat lyfjaflokknum.
Hóprannsóknir hafa sýnt að það hindrar beinniðurbrot og getur aukið beinmagnið um nokkur prósent eftir að lyfið hefur verið tekið í nokkur ár, sérstaklega í hrygg. Einnig hefur verið sýnt fram á að lyfið kemur í veg fyrir beintap vegna Prednisolon meðferðar. Hóprannsóknir hafa sýnt að lyfið minnkar áhættu á samfallsbrotum í hrygg, sérstaklega þegar sjúklingur hefur þegar hlotið slíkt brot, en óljóst er hins vegar enn þá hvort lyfið hefur áhrif á tíðni brota utan hryggsúlu.
Helsta ábending fyrir töku lyfsins er því lág beinþéttni í hrygg, saga um samfallsbrot, eða ef viðkomandi þarf að vera á langtíma Prednisolon meðferð.
Lyfið er tekið í tvær vikur í senn með 11 vikna hléi til að koma í veg fyrir aukaverkanir. Á þennan hátt er lyfið tekið í hálfan mánuð í senn fjórum sinnum á ári. Lyfið er tekið á fastandi maga eða tveimur klst. eftir mat. Oftast þolist lyfið vel en aukaverkanir eru helst meltingaróþægindi.
Calcitonin (Miacalcic):
Calcitonin er náttúrulegt hormón sem myndað er í skjaldkirtilsfrumum og verkar hemjandi á frumurnar í beinum sem stjórna beinniðurbroti (osteoclastar). Lyfið dregur því úr niðurbroti beina. Ákveðinn dagskammtur af lyfinu (200 ein/dag) virðist minnka líkur á samfallsbrotum í hrygg.
Lyfið er ekki skráð á Íslandi gegn beinþynningu. Til þess er þó stundum gripið þegar önnur lyf virðast ekki duga ein sér. Jafnframt benda rannsóknir til að það sé verkjastillandi, til dæmis eftir samfallsbrot í hrygg.
Lyfið er unnt að gefa sem nefúða eða í sprautum.
Mikilvægt er að tryggja góða kalk- (meira en 1000 mg/dag) og D-vítamín inntöku (4-800 einingar á dag) með öllum þessum lyfjum til þess að ekki þurfi að ganga á kalkforðabúr beinanna til að halda uppi eðlilegri kalkþéttni í blóði sem allar frumur líkamans þarfnast.
(Tekið saman fyrir Beinvernd í október 2000)