Hreyfing sem felur í sér þungaburð s.s. göngur, skokk og hlaup styrkja beinin. Það er aldrei of seint að hefja þjálfun til beinverndar. Heilbrigð bein þarfnast kröftugrar líkamsþjálfunar til þess að styrkjast enn frekar. Þegar beinþynning er til staðar er mest um vert að viðhalda styrk beinanna með léttri líkamsþjálfun á þann hátt að fremur reyni á fæturna en hrygginn. Gott jafnvægi og sterkir fætur vinna gegn byltum á efstu árum, en byltur eru helsta orsök mjaðmarbrota.