Í ár verður Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ haldið 16. júní um allt land. Nú er um að gera að fara að huga að því að koma sér í form, kynna sér hlaupahópa í sínu hverfi og mæta fersk til leiks í byrjun júní.
Þeir sem vilja skipuleggja hlaup í sínu hverfi, bæjarfélagi eða erlendis er bent á að hafa samband við Kristínu Lilju Friðriksdóttur, verkefnisstjóra almenningsíþróttaviðs ÍSÍ í síma 514-4000 eða á netfangið [email protected].
Kvennahlaupið í ár verður með stærra sniði en áður en ÍSÍ fagnar um þessar mundir 100 ára afmæli sínu. Allar konur um land allt eru hvattar til þess að taka daginn frá en tilgangur hlaupsins er að efla heilsu kvenna. Hefð hefur skapast hjá mæðgum, systrum, frænkum og vinkonum að mæta saman í hlaupið og sýna þar með samstöðu kvenna í verki en slagorð hlaupsins í ár er Hreyfing til fyrirmyndar.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Rauði kross Íslands og Sjóvá standa fyrir söfnun á brjóstahöldum og öðrum undirfötum í tengslum við Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ sem fram fer þann 16. júní. Árlega velja skipuleggjendur Kvennahlaupsins eitt málefni tengt konum til að vekja sérstaka athygli á. Í ár var ákveðið að hvetja þátttakendur kvennahlaupsins til að gefa nærföt (s.s. brjóstahöld) í fatasafnanir hjálparsamtaka. Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum þá skilar nærfatnaður sér síður í hefðbundnum fatasöfnunum en annar fatnaður. Margir átti sig einfaldlega ekki á því að eftirspurn sé eftir þessum fatnaði.
Söfnuninni var hleypt af stokkunum í dag en þá mættu Stella Sigurðardóttir, leikmaður Fram í handknattleik og nýkjörinn leikmaður ársins í N1 deild kvenna, og móðir hennar Soffía Bragadóttir, til Rauða krossins til þess að gefa fyrstu brjóstahöldin. Söfnunin mun standa út júní en hægt verður að koma með fatnaðinn á söfnunarstöðvar Rauða krossins og í Sorpu en einnig verður tekið við brjóstahöldunum við rásmörk Kvennahlaupsins um allt land á hlaupadaginn.