Það að ganga er eitt af því auðveldasta, öruggasta og skemmtilegasta sem hægt er að gera til að halda sér í líkamlegu formi, hafa stjórn á líkamsþyngd, styrkja vöðva, minnka streitu, bæta heilsu og auka lífsgæðin.
Rannsóknir haf sýnt að 30 mínútna ganga á dag getur verið næg hreyfing til að viðhalda heilsu. Göngur eru þó ekki nógu öflugar til að auka beinþéttnina en hins vegar geta göngur viðhaldið þeirri beinþéttni sem við höfum. Útiveran hjálpar okkur að fá D-vítamín í kroppinn en D-vítamín myndast í húð fyrir áhrif sólarljóss. D-vítamín stjórnar frásogi á kalki í görnum og án þess frásogast einungis um það bil 10% kalkmagninu í fæðunni. Hreyfing, kalk og D-vítamín er okkar heilsuþrenna fyrir beinin.
Það getur verið mikil áskorun að finna tíma til að hreyfa sig. Það ætti að vera auðvelt að koma göngutúr inn í dagsskipulagið. Það þarf ekki mikinn eða dýran útbúnað fyrir göngurnar eða flókinn undirbúning.
Við hjá Beinvernd munum vera með góð ráð við gönguþjálfun hér á síðunni í sumar. Göngum 30 mínútur á dag, annað hvort samfellt eða 3 x 10 mínútur í senn þrisvar til fimm sinnum í viku. Best er að byrja rólega skref fyrir skref og ganga styrkum fótum inn í sumarið.
Munum eftir kvennahlaupinu laugardaginn 7. júní.