Með auknum aldri eykst hættan á kalk- og D-vítamínskorti. Þá verða breytingar á líkamsstarfsseminni sem geta valdið því að beinin missa of mikið af kalki og þar með eykst hætta á beinþynningu.
Með auknum aldri dregur úr eftirfarandi:
- neysu á kalki, sem tengist yfirleitt minni matarlyst, veikindum, auk ýmissa félagslegra og efnahagslegra þátta.
- frásogi kalks frá meltingarvegi, sérstaklega ef D-vítamín styrkur er lágur.
- hæfni fruma í meltingarvegi til að þess að aðlagast minni neyslu á kalki.
- útiveru hjá þeim, sem ekki eru rólfærir, annað hvort heima eða á stofnunum, en húðin myndar D-vítamín fyrir tilstilli sólarljóss.
- hæfni húðarinnar til þess að mynda D-vítamín.
- skilvirkni nýrna til að geyma kalk, sem veldur auknu kalktapi með þvagi.
- hæfni nýrnanna til að umbreyta D-vítamíni á það form sem nýtist líkamanum, 1,25-dihydroxyvitamin D .
Með auknum aldri dregur úr hæfni til þess að soga kalk úr fæðunni. Aldraðir, sérstaklega þeir sem eru brothættir og með litla matarlyst, hreyfa sig lítið eða eru veikir, þurfa oft að fá D-vítamín og kalk í töfluformi samkvæmt læknisráði. Konur ættu að taka inn kalk og D-vítamín á meðgöngunni og á meðan brjóstagjöf stendur. Svo á og við og alla þá sem stríða við heilsufarsvandkvæði, s.s. vegna starfssemi lifrar eða nýrna, sem síðan hefur áhrif á efnaskipti D-vítamíns.
Sjúklingar sem greindir hafa verið með beinþynningu og fara í lyfjameðferð fá einnig kalk og D-vítamín til að áhrif meðferðarinnar verði sem mest. Hins vegar er ávallt best að ráðfæra sig við lækni því sams konar meðferð hentar ekki öllum.