Það er aldrei of seint að hefja þjálfun til beinverndar. Beinin þurfa kröftuga líkamsþjálfun til að styrkjast. Þau bregðast jákvætt við áreiti þegar þau eru þvinguð til að bera meiri þunga en við lágmarkshreyfingu. Reglubundin og fjölbreytt líkamsrækt er lykillinn að sterkum beinum. Álagið þarf að vera endurtekið og getur t.d. verið fólgið í því að hoppa, stappa og stíga til jarðar af fullum þunga.
Reglubundin áreynsla, jafvel þó að hún virðist auðveld getur viðhaldið beinum. Sé hún hins vegar þannig að maður finnur verulega fyrir henni er hún líkleg til þess að auka beinstyrk. Slík þjálfun ásamt jafnvægisþjálfun getur dregið úr byltum og þar með brotum. Rannsóknir benda til þess að fólk sem stundar reglubundna líkamsþjálfun brotnar síður en það fólk sem lifir kyrrsetulífi og á þetta sérstaklega við um mjaðmarbrot sem eru alvarlegustu beinþynningarbrotin. Endurheimt beinmassa krefst mjög mikillar þjálfunar. Þegar beintap er orðið slíkt að það skilgreinist sem beinþynning er lögð áhersla á að viðhalda beinmassanum með léttum æfingum og jafnframt kappkostað að gæta þess að beinin verði ekki fyrir of miklu álagi og umfram allt er reynt að koma í veg fyrir byltur.
Líkamsþjálfunin verður að vera fjölbreytt og ánægjuleg. Álagið verður að miðast við getu en þó nógu mikið til þess þannig að við finnum að við erum að reyna á okkur. Hafa ber í huga að við eigum ekki að finna fyrir sársauka. Best er að fara rólega af stað og af varkárni en auka álagið smám saman. Létt þjálfun er talin heppileg fimm daga vikunnar. Með líkamsþjálfun er átt við leiki, íþróttir, líkamsrækt, gönguferðir, heimilisverk og garðvinnu svo nokkur dæmi séu nefnd. Öll þjálfun skilar betri líkamlegri og andlegri líðan og yfirleitt er ávinningurinn að mestur fyrir þá sem búa að lítilli líkamlegri hreysti við upphaf þjálfunar. Reglubundin líkamsþjálfun gagnast fóli á öllum aldri en er mikilvægust fyrir börn og unglinga og fullorðið fólk með langvinna sjúkdóma.