Hið árlega Kvennahlaup Sjóvá og ÍSÍ verður haldið 20. júní í ár. Sjóvá Kvennahlaupið á merkisafmæli í ár þar sem það verður haldið í tuttugasta sinn.
Fyrsta hlaupið fór fram í Garðabæ árið 1990 og þá hlupu um 2.500 konur. Á þessum 20 árum hefur þátttakan margfaldast og er stefnt að því í ár að 20.000 konur taki þátt um land allt! Kvennahlaupið er einn vinsælasti almenningsíþróttaviðburður á landinu og hefur teygt anga sína víða, nú er hlaupið allt frá Íslandi til Ástralíu.
Markmið Kvennahlaupsins hefur frá upphafi verið að hvetja og styðja konur á öllum aldri til aukinnar hreyfingar og heilsueflingar, ekki aðeins þennan eina dag heldur sem flesta daga ársins. Heilsa er allt í senn líkamleg, andleg og félagsleg og jákvætt hugarfar er því, ásamt hreyfingu og hollum matarvenjum, mikilvægur liður í daglegri heilsurækt. Regluleg skoðun er liður í heilbrigðum lífsstíl og getur bæði lengt og bætt líf kvenna.
Nánari upplýsingar um hlaupið er að finna á heimasíðu kvennahlaupsins.