Læknadagar standa nú yfir dagana 19-23 janúar, en þeir eru árlegur viðburður Læknafélags Íslands. Mörg áhugaverð málþing eru þar fyrir lækna og eitt þeirra beindi sjónum að íslensku áhættumati fyrir beinbrotum og nýjungum í meðferðarvali.
Prófessor Gunnar Sigurðsson gerði grein fyrir umfangsmikilli rannsóknarvinnu við gerð reiknilíkans sem spáir fyrir um áhættu einstaklinga fyrir beinbrotum af völdum beinþynningar. Reiknilíkanið byggir alfarið á íslenskum staðtölum. Stefnt er að því að reiknilíkan þetta verði opið á veraldavefnum fyrir lækna til þessa að þeir geti reiknað út brotáhættu fyrir skjólstæðinga sína og þannig auðveldað þeim meðferðaákvarðanir. Fyrirmynd að þessu módeli er reiknilíkan sem alþjóðaheilbrigðistofnunin WHO hefur hannað og unnt er að nota á veraldavefnum – sjá fyrri frétt Beinverndar um FRAX
Prófessor Steven Boonen, er yfirmaður rannsóknarmiðstöðvar um beinasjúkdóma við Háskólann í Leuven í Belgíu og forstöðulæknir Öldrunardeildar háskólasjúkrahússins í Leuven. Hann flutti erindi sem hann nefndi: “Reducing Osteoporotic Fracture Risk With Annual Bisphosphonate Therapy” – en þar gerði hann grein fyrir nýju meðferðatækifæri, þar sem einstaklingar með alvarlega beinþynningu fá lyfjadreypi gefið með 15 mínúta innrennsli einu sinni á ári með góðum meðferðarárangri til fækkunar á beinbrotum, ekki bara í baki, þ.e.a.s. samfallsbrotum, heldur líka mjaðmabrotum og enn áhugaverðara er að með notkun þessa lyfs má fækka dauðsföllum í kjölfari mjaðmabrota.