Kúabændur og MS færðu Landspítalanum nýjan og fullkominn beinþéttmæli að gjöf í byrjun árs 2015. Beinþéttnimælirinn er svokallað DXA-röntgentæki sem mælir beinmassa eða beinþéttni á einfaldan og sársaukalausan hátt. Hann sýnir ástand beina á augabragði og getur einnig greint ákveðnar tegundir brota sem sum geta verið einkennalaus. Þá mælir hann einnig líkamssamsetningu og fleira með nákvæmum hætti. Rannsóknin tekur um 15-20 mínútur, allt eftir því hversu ítarleg hún er. Oftast er mældur beinmassi í hryggjarliðum, framhandlegg, lærleggshálsi og mjöðm.
Tækið leysir af hólmi mæli frá árinu 1998, sem kominn var til ára sinna. „Mjólkin gefur styrk“ var söfnunarátak fyrir þessum nýja beinþéttnimæli sem MS stóð fyrir með sölu á sérpakkaðri D-vítamínbættri léttmjólk og fóru 15 krónur af hverri fernu í söfnunarátakið. Útlit söfnunarfernunnar vakti mikla athygli, svört með hvítu letri með upplýsingum um næringarefni fyrir beinin og mikilvægi kalks. Tækið var afhent í byrjun árs og var tekið í notkun í febrúar á þessu ári.