Landsmót UMFÍ 50+ fór fram helgina 10. – 12. júní sl. á Ísafirði. Þetta var í sjötta sinn sem mótið er haldið og er það skemmtileg viðbót við önnur landsmót UMFÍ en eins og nafnið bendir til er það ætlað þeim sem eru 50 ára og eldri.
Íþróttakeppnin skipaði stærstan sess á mótinu en auk þess voru fjömargir aðrir viðburðir s.s. heilsufarsmælingar en fulltrúi frá Beinvernd var mættur á staðinn með beinþéttnimælingar. Ásóknin í þær reyndist svo mikil að löng biðröð myndaðist klukkustundum saman og fjöldi landsmótsgesta fékk að vita um ástand beina sinna. Það er ómetanlegt í allri forvarnarvinnu að geta talað beint við fólk, útskýrt niðurstöður mælinga og gefið ráðleggingar um hvað unnt sé að gera til að stuðla að og viðhalda sterkum beinum. Almenn ánægja var með þessa þjónustu.
Beinþéttnimælirinn var síðan skilinn eftir á Ísafirði og munu hjúkrunarfræðingar á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði bjóða upp á beinþéttnimælingar í umdæminu í sumar.