Haldið er upp á alþjóðlega beinverndardaginn 20. október ár hvert. Yfirskriftin í ár er lífsgæði. Fáir sjúkdómar geta skert lífsgæði jafn mikið og beinþynning. Lífsgæði hvers einstaklings byggjast á mati hans sjálfs á ýmsum hlutlægum og huglægum þáttum. Dæmi um hlutlæga þætti lífsgæða eru húsnæði og atvinna. Huglægir þættir eru t.d. heilsufar, verkir, svefn, fjárhagur og samskipti. Þeim sem eru heilbrigðir finnst sjálfsagt mál að geta tekið fullan þátt í því sem lífið hefur uppá að bjóða. Stunda vinnu, útivist og hreyfingu sem og sinna fjölskyldu og félagslífi svo eitthvað sé nefnt. Beinþynning getur hindrað okkur í að gera allt þetta og þannig haft mikil áhrif á lífsgæði okkar.
Beinin eru lifandi vefur sem er í stöðugri endurnýjun. Ákveðnar frumur vinna við niðurbrot á beinvef (osteoclastar) og aðrar frumur vinna við uppbyggingu á beinvef (osteoblastar). Á fyrri hluta ævinnar er beinauppbyggingin hraðari en niðurbrotið og við byggjum upp beinaforða. Beinvöxturinn er sérstaklega hraður frá fæðingu og til tveggja ára aldurs og svo aftur á kynþroskaskeiðinu. Á aldrinum 20 – 40 ára erum við með sterkustu beinin. Hjá konum helst beinmagnið stöðugt fram að breytingaskeiði en þá tekur niðurbrotið yfirhöndina og beinin byrja að þynnast. Hjá körlum er ferillinn svipaður en beintapið hefst u.þ.b. 10 árum seinna. Einstaklingur greinist með beinþynningu þegar beinmassinn hefur minnkað verulega og mikil rýrnun hefur orðið á beinvef. Beinin verða stökk og hættan á beinbrotum eykst til muna. Niðurbrot beinanna gerist hægt og hljótt. Það er oft ekki fyrr en beinbrot verður að sjúkdómurinn uppgötvast.
Algengustu brotastaðir líkamans eru framhandleggirnir (úlnliðsbrot), hryggurinn og mjaðmirnar. Beinbrot á þessum stöðum eru sársaukafull og geta valdið langvarandi fötlun og ósjálfstæði og þannig haft gífurleg áhrif á lífsgæði okkar til hins verra. Brot á mjöðmum og í hrygg eru sérstaklega slæm hvað þetta varðar. Algengt er að beinbrot sé vendipunktur í lífi aldraðs einstaklings. Fram að broti bjó einstaklingurinn kannski einn heima og sá um sig sjálfur. Eftir brotið og langdvalir á legudeildum bráðasjúkrahúsa og endurhæfingardeildum kemst hann hugsanlega heim aftur að lokum. Algengt er þó að þeir sem mjaðmarbrotna nái aldrei aftur fyrra sjálfstæði. Í versta falli geta mjaðmarbrotin leitt til örkumlunar og dauða.
Ein af hverjum þremur konum yfir fimmtugt er með beinþynningu og einn af hverjum átta körlum. Þar sem lífslíkur fólks eru stöðugt að aukast er fyrirsjáanlegt að fleiri og fleiri munu í framtíðinni fá beinþynningu. Kostnaður samfélagsins af beinbrotum er gífurlegur að ekki sé talað um þjáningarnar sem þau valda. Áætlað er að hér á landi megi rekja um 1000 – 1200 beinbrot á ári til beinþynningar.
Forvarnir gegn beinþynningu eru nauðsynlegar hverjum manni. “Beinvænn” lífsstíll á öllum æviskeiðum og beinþéttnimæling eftir fertugt eru lykilatriði í því að koma í veg fyrir fyrsta brot og varðveita með því lífsgæðin. Holl fæða sem inniheldur nægilegt kalk, D-vítamín og prótein ásamt hæfilegri hreyfingu eru grundvallaratriði góðrar beinaheilsu. Þessi atriði ber að hugsa um alla ævi. Það er á ábyrgð okkar fullorðna fólksins að sjá til þess að börn og unglingar nærist á réttan hátt en láti af gosdrykkjaþambi og skyndibitaáti. Með því móti leggja þau inn í beinabankann sinn og safna upp beinvef. Það er gangur lífsins að beinin þynnast á seinni hluta ævinnar. Sé beinmassinn nógu mikill þegar niðurbrotstímabilið byrjar minnka líkur á því að beinin þynnist það mikið að þau brotni við lítið hnjask. Það vill enginn vera brothættur, hvorki á unga aldri né síðar. Nútímasamfélagið krefst þess að fólk sé þróttmikið, atorkusamt og duglegt. Til þess þurfum við sterk bein alla ævi.
Það er auðvelt að greina og meðhöndla beinþynningu. Með svokölluðum hælmæli má á einfaldan hátt finna þá sem þurfa á frekari mælingum að halda. Greinist einstaklingur með beinþynningu í kjölfar nákvæmra mælinga, þá þarf læknir að ákvarða meðferð. Lyf við beinþynningu eru í stöðugri þróun og hafa rannsóknir leitt í ljós að þau geta minnkað stórlega hættuna á beinbroti. Auk lyfja eru líkamsæfingar og holl næring nauðsynlegur hluti meðferðar við beinþynningu.
Lifum lífinu lifandi. Gerum allt sem í okkar valdi stendur til að varðveita lífsgæði okkar. Forvarnir gegn beinþynningu eru hluti af því og að þeim þurfum við að vinna alla ævi. Beinheilsa næstu kynslóðar veltur að nokkru leyti á okkur. Förum vel með það vald. Hreyfing, kalk og D-vítamín eru grundvallaratriði. Munum eftir því.
Þeir sem vilja afla sér frekari upplýsinga um beinþynningu, forvarnir gegn henni, áhættuþætti, greiningu og meðferð ættu að líta á heimasíðu Beinverndarsamtakanna: [email protected]
Eyrún Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur og í stjórn Beinverndar.